Enski boltinn

Liverpool mætir krakkaliði ef leikurinn við Villa fer fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stærstu stjörnur Aston Villa verða fjarri góðu gamni gegn Liverpool í kvöld.
Stærstu stjörnur Aston Villa verða fjarri góðu gamni gegn Liverpool í kvöld. getty/Peter Powell

Aston Villa teflir fram unglingaliði ef leikurinn gegn Liverpool í 3. umferð ensku bikarkeppninnar fer fram í kvöld.

Villa lokaði æfingasvæði sínu í gær eftir að fjöldi kórónuveirusmita kom upp á meðal leikmanna og starfsmanna aðalliðsins.

Villa á að taka á móti Liverpool í fyrsta leik 3. umferðar ensku bikarkeppninnar í kvöld.

Vonir standa til að leikurinn geti farið fram en Villa mun þá tefla fram hálfgerðu krakkaliði. Enginn af leikmönnum aðalliðsins mun spila og knattspyrnustjórinn, Dean Smith, verður heldur ekki á hliðarlínunni, heldur Mark Delaney, þjálfari varaliðs Villa.

Til að leikurinn geti farið fram þurfa ungu leikmennirnir sem eiga að spila fyrir Villa að fá neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. Endanleg niðurstaða hvort leikurinn fer fram liggur fyrir í dag.

Villa vann 7-2 sigur á Liverpool þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni fyrr á þessu tímabili.

Villa á að mæta Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudaginn en enn er óljóst hvort leikurinn geti farið fram.

Leikur Aston Villa og Liverpool hefst klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×