Yfirvöld hafa miklar áhyggjur af stöðu mála, en undanfarna daga hefur metfjöldi greinst með kórónuveirusmit á hverjum degi. Fjöldi nýrra smita fór í fyrsta sinn yfir sextíu þúsund í fyrradag og voru þau enn fleiri í gær, eða 62 þúsund.
Matt Hancock heilbrigðisráðherra sagði stöðuna alvarlega og því hefði verið nauðsynlegt að herða aðgerðir í landinu. Ef staðan myndi versna gæti heilbrigðisstarfsfólk þurft að ákveða hverjir fengju heilbrigðisaðstoð og hverjir ekki, þar sem heilbrigðiskerfið myndi ekki geta sinnt öllum.
„Ef við grípum ekki til aðgerða núna, þá mun heilbrigðiskerfið ekki standa undir álaginu,“ er haft eftir Hancock á vef breska ríkisútvarpsins.
Hann sagði fyrirséð að fyrstu vikur vetrarins yrðu erfiðar en landsmenn þekktu leiðina út. Þá hafði dreifingu bóluefnis verið flýtt og aðgerðir hertar á landsvísu.