Innlent

Fimm þúsund skammtar frá Moderna væntanlegir í janúar og febrúar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Gert er ráð fyrir að Ísland fái samtals fimm þúsund skammta af bóluefni Moderna í janúar og febrúar, sem duga fyrir 2.500 manns. Eftir það verði afhending hraðari. Alls á Ísland von á 128 þúsund skömmtum frá Moderna sem duga fyrir 64 þúsund manns.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu í dag en ekkert hefur legið fyrir um afhendingu bóluefnis Moderna fyrr en nú. 

Vonir standa til að Moderna fái markaðsleyfi í Evrópu eftir fund Evrópsku lyfjastofnunarinnar á morgun. Lyfjastofnun Íslands mun í kjölfarið gefa út leyfi hér á landi, sem gert er ráð fyrir að gangi hratt fyrir sig.

Í tilkynningu segir að skammtarnir sem Ísland fær í janúar og febrúar séu hlutfallslega jafnmargir og aðrar þjóðir í Evrópusamstarfi um kaup á bóluefnum fá. Líkt og áður segir fær Ísland fimm þúsund skammta sem deilast munu niður á mánuðina tvo. Ekki kemur fram í tilkynningu hversu margir skammtar koma hvorum mánuði.

Meira bóluefni frá Pfizer ekki útilokað

Fyrir áramót komu til Íslands tíu þúsund skammtar af bóluefni frá Pfizer. Fyrir liggur að á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fær Íslands að lágmarki 45 þúsund skammta til viðbótar. Næsta afhending er áætluð 20 janúar. 

Skömmu fyrir áramót gerði Ísland samning við Pfizer um áttatíu þúsund bóluefnaskammta til viðbótar þeim 170 þúsund skömmtum sem áður hafði verið samið um. Ekki er útilokað að meira bóluefni berist frá Pfizer á fyrsta ársfjórðungi vegna viðbótarsamningsins, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Segja umræðuna ekki eiga að snúast um færni starfsfólks

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins áréttar að blöndun og meðhöndlun bóluefnis Pfizer hafi að öllu leyti farið eftir leiðbeiningum markaðsleyfishafa og fyrirmælum Lyfjastofnunar og Embættis landlæknis. Umræða um blöndunina eigi ekki að snúast um færni starfsfólks heldur hvort farið sé eftir leiðbeiningum.

Treysta á mat Evrópsku lyfja­stofnunarinnar

Íslensk heilbrigðisyfirvöld árétta að þau treysti á mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) á öryggi, gæðum og virkni bóluefna gegn kórónuveirunni. Þá benda stjórnvöld á að með tímabundnu neyðarleyfi, líkt og Bretland veitti fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca, séu ekki gerðar jafnríkar kröfur til bóluefnanna og EMA gerir með skilyrtu markaðsleyfi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.