Innlent

Treysta á mat Evrópsku lyfja­stofnunarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Íslensk heilbrigðisyfirvöld árétta að þau treysti á mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA) á öryggi, gæðum og virkni bóluefna gegn kórónuveirunni. Þá benda stjórnvöld á að með tímabundnu neyðarleyfi, líkt og Bretland veitti fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca, séu ekki gerðar jafnríkar kröfur til bóluefnanna og EMA gerir með skilyrtu markaðsleyfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Ætla má að tilefnið sé umræða um bóluefnasamninga Íslands í gegnum Evrópusambandið. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur lýst yfir áhyggjum af seinagangi sambandsins, sem gæti orðið til þess að aðeins lítill hluti þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir lok þessa árs. Heilbrigðisráðuneytið gerir þó ráð fyrir að búið verði að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar í sumar.

Þá nefndi Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í gær að til greina kæmi að veita neyðarleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna hér á landi. Bretar veittu á dögunum tímabundið neyðarleyfi fyrir notkun bóluefnis AstraZeneca í landinu.

Heilbrigðisráðuneytið bendir á í tilkynningu í dag að ein af forsendunum fyrir því að slíkt leyfi sé veitt sé að bóluefnið sé þegar til reiðu og aðgengilegt og að um neyð sé að ræða. Bent er á að eftir að neyðarleyfi Breta var gefið út hafi EMA sent út fréttatilkynningu, þar sem fram kemur að stofnunin hafi kallað eftir frekari gögnum frá lyfjaframleiðandanum er varða gæði, öryggi og virkni bóluefnis AstraZeneca til að geta veitt skilyrt markaðsleyfi fyrir notkun þess.

„Það er rétt að hafa hugfast að tímabundið neyðarleyfi er ekki það sama og skilyrt markaðsleyfi sem Lyfjastofnun Evrópu gefur út þar sem ríkari kröfur eru gerðar til markaðleyfis er varðar evrópska staðla um öryggi, virkni og gæði,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

„Íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja áherslu á að allra sjónarmiða sé gætt varðandi öryggi, gæði og virkni bóluefna við COVID-19 og treystir þar á mat Evrópsku lyfjastofnunarinnar, líkt og allar aðrar þjóðir sem eru þátttakendur í Evrópusamstarfinu, þar með talinn Noregur sem er þátttakandi í samstarfinu á sömu forsendum og Ísland.“


Tengdar fréttir

Jafnvel von á meira bóluefni fyrr en búist var við

Sóttvarnalæknir telur að vonast megi til þess að meira bóluefni berist til landsins fyrr en talið hefur verið til þessa. Þá sé „mjög óráðlegt“ að hans mati að gefa bóluefni á annan máta en framleiðendur og rannsóknir mæla með, til dæmis í hálfum skömmtum.

Bretar hefja bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca

Bólusetningar með bóluefni Oxford-AstraZeneca hefjast í dag og ætla Bretar að setja aukinn kraft í bólusetningar þar í landi til að reyna að stemma stigu við hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.