Fótbolti

Segir að Ísak sé á leið til Salzburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur.
Ísak Bergmann Jóhannesson er eftirsóttur. vísir/vilhelm

Ísak Bergmann Jóhannesson er líklega á leið til Austurríkismeistara Red Bull Salzburg í þessum mánuði.

Hjörvar Hafliðason greindi frá þessu í hlaðvarpinu Dr. Football. „Hann er að fara til Salzburg miðað við það sem ég heyri. Það er langlíklegasti staðurinn,“ sagði Hjörvar.

Ísak, sem er sautján ára, sló í gegn með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Frammistaða hans vakti mikla athygli og hann hefur undanfarna mánuði verið orðaður við mörg af stærstu félögum Evrópu.

Þegar Aftonbladet spurði Ísak út í framtíðina í gær sagði hann að fólk ætti ekki að trúa öllu sem það læsi og það væri ekki ljóst að hann færi frá Norrköping í þessum mánuði.

Norrköping skipti um þjálfara eftir síðasta tímabil en Rikard Norling tók við af Jens Gustafsson sem hafði stýrt liðinu síðan 2016.

Salzburg hefur orðið austurríski meistari sjö ár í röð og leikið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu undanfarin tvö tímabil.

Meðal þekktra leikmanna sem hafa leikið með Salzburg og farið svo til stærri félaga má nefna Erling Håland, Sadio Mané og Dominik Szoboszlai.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.