Fótbolti

Komst ekki í liðið hjá Gylfa og fé­lögum en nú vill PSG borga rúm­lega þrjá­tíu milljónir punda fyrir hann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi fagnar marki með Moise Kean í enska deildarbikarnum fyrr á tímabilinu, áður en hann var lánaður til PSG.
Gylfi fagnar marki með Moise Kean í enska deildarbikarnum fyrr á tímabilinu, áður en hann var lánaður til PSG. Tony McArdle/Getty

Mauricio Pochettino, stjóri PSG, og starfslið hans er talið vilja kaupa Moise Kean til félagsins. Kean hefur verið á láni hjá PSG á tímabilinu frá Everton en þeir vilja nú kaupa hann til félagsins.

Kean gekk í raðir Everton í ágústmánuði 2019 en hann náði sér ekki á strik á Englandi. Hann átti í erfiðleikum með að brjóta sér leið inn í byrjunarliðið eftir komuna frá Juventus og var að endingu lánaður til PSG.

Everton er talið tilbúið að hlusta á tilboð í Kean en þeir vilji að minnsta kosti fá 27 milljónir punda fyrir hann því það er sú upphæð sem þeir borguðu fyrir Kean.

Hinn tvítugi Kean hefur notið sín í framlínu PSG, á milli Neymar og Kylian Mbappe, en hann skoraði einungis fjögur mörk í 37 leikjum á Englandi. Við miklu var búist þegar hann kom til Englands en ekki kom mikið út úr því.

„Ég hef tækifæri til að læra mikið af þeim,“ sagði Kean í síðasta mánuði um það að spila með Kylian Mbappe og Neymar. „Þeir eru tveir af bestu leikmönnum í heimi. Ég er mjög ánægður að spila með þeim og þeir eru miklir leiðtogar.“

Pochettino var ráðinn þjálfari PSG um helgina en hann stýrði sinni fyrstu æfingu með liðið í gær. Hann stýrir sínum fyrsta leik á miðvikudaginn, tveimur áratugum eftir að hann spilaði með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×