Enski boltinn

Er á því að keppnin um titilinn sé áfram á milli Liverpool og Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Portúgalarnir Diogo Jota hjá Liverpool og Bernardo Silva hjá Manchester City.
Portúgalarnir Diogo Jota hjá Liverpool og Bernardo Silva hjá Manchester City. Getty/Visionhaus

Það er mikil spenna í ensku úrvalsdeildinni eftir leiki jólahátíðarinnar en einn knattspyrnusérfræðingur sér samt ekki mikla breytingu á því hvaða lið eigi mestu möguleikana á því að verða enskur meistari í ár.

Liverpool og Manchester City hafa barist um og unnið enska meistaratitilinn síðustu tímabil og hafa undanfarnar tvær leiktíðir verið í algjörum sérflokki. Enska úrvalsdeildin lítur út fyrir að vera miklu jafnari í ár en sumir eru enn á því að þetta sé áfram bara barátta á milli þessara tveggja liða.

Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og Tottenham, er knattspyrnusérfræðingur í þættinum Match of the Day á breska ríkisútvarpinu, er einn af þeim sem eru enn sannfærðir um að það séu bara Liverpool og Manchester City sem eigi alvöru möguleika á titlinum.

„Ég sé ekkert annað en að Liverpool og Manchester City verði númer eitt og tvö þó svo að stuðningsmenn Manchester United séu auðvitað að vonast til að liðið þeirra geti gert eitthvað,“ sagði Danny Murphy

„Ég held samt að það sé öruggt að ekkert lið eigi eftir að stinga af í ár. Þetta verða Liverpool og Manchester City í efstu tveimur sætunum og svo kannski nær Chelsea að kom til baka með þennan hóp sem liðið er með,“ sagði Danny Murphy.

Liverpool og Manchester United eru efst í deildinni með 33 stig. Það er aðeins eitt stig niður í þriðja sætið (Leicster City) og bara fjögur stig nður í sjötta sætið (Everton).

Manchester City er með 29 stig eins og Tottenham og Everton en City á leik inni á toppliðin og svo á liðið tvo leiki til góða á Leicester City.

Aston Villa á líka leik inni en liðið er með 26 stig eins og Chelsea sem situr nú í sjöunda til tíunda sæti með Villa, Southampton og West Ham. Arsenal hefur unnið þrjá leiki í röð og með 23 stig eins og Leeds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×