Innlent

Vöknuðu við rúðurnar springa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikill eldur logaði á svölum íbúðarinnar í nótt.
Mikill eldur logaði á svölum íbúðarinnar í nótt. SKjáskot/Víkurfréttir

Talsverður eldur kviknaði í íbúð í fjölbýlishúsi á Ásbrú í Reykjanesbæ í nótt. Tvö voru sofandi í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði en vöknuðu þegar rúður sprungu vegna hita og komust óhult út, að sögn varðstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja. Víkurfréttir greindu fyrst frá málinu á Facebook-síðu sinni í morgun.

Útkallið barst um klukkan fjögur í nótt en Ingvi Þór Hákonarson aðstoðarvarðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað hver eldsupptök eru. Eldurinn hafi verið mestur í kringum svaladyr á íbúðinni en hafi verið byrjaður að teygja sig inn í íbúðina.

Fólkið sem var inni í íbúðinni komst út af sjálfsdáðum og varð ekki meint af. Ingvi segir að slökkvistarf hafi tekið um klukkutíma en reykræsta þurfti íbúðina eftir að eldurinn var slökktur. Ekki þurfti að rýma aðrar íbúðir í húsinu en nokkrir íbúar komu sér þó út þegar þeir urðu varir við eldinn.

Að öðru leyti var nokkur erill í sjúkraflutningum hjá Brunavörnum Suðurnesja á nýársnótt, að sögn Ingva. Flutningarnir hafi þó ekki tengst flugeldaslysum heldur veikindum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband Víkurfrétta frá vettvangi í nótt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.