Enski boltinn

Segir Pogba aldrei hafa virst ósáttan

Sindri Sverrisson skrifar
Matteo Darmian og Paul Pogba eru ekki lengur liðsfélagar en Darmian talar vel um Frakkann.
Matteo Darmian og Paul Pogba eru ekki lengur liðsfélagar en Darmian talar vel um Frakkann. VÍSIR/GETTY

Ítalinn Matteo Darmian segir að Paul Pogba hafi fengið ósanngjarna gagnrýni í Bretlandi og að hann hafi aldrei virst óánægður hjá Manchester United.

Darmian og Pogba léku saman hjá United þar til að Darmian fór til Parma síðasta haust. Pogba hefur reyndar nánast ekkert spilað á leiktíðinni í vetur, heldur glímt við meiðsli, en Darmian segir Pogba alltaf hafa lagt sig allan fram, bæði á æfingum og í leikjum. United keypti Pogba fyrir 89,3 milljónir punda þegar félagið fékk hann aftur frá Juventus fyrir fjórum árum.

„Paul er vinur minn og samband okkar er alveg frábært. Í fyrsta lagi þá erum við að tala um algjöran sigurvegara hérna, magnaðan fótboltamann, en jafnvel þeir geta átt tímabil þar sem þeir spila ekki eins vel og þeir myndu óska. Ég held að aðalvandamálið með Pogba hjá United sé kaupverðið því það hafði áhrif á það hvernig fólk hugsaði til hans,“ sagði Darmian við The Guardian.

„Það er búið að vera mikið um ósanngjarna gagnrýni í garð Pogba. Til að mynda hefur því verið haldið fram að hann leggi ekki nógu hart að sér en ég get fullyrt það að hann gefur sig allan í hvert einasta verkefni. Að mínu mati hefur frammistaða hans verið góð síðustu ár en það er of neikvæð umræða um hann í Bretlandi,“ sagði Darmian.

„Sá ég Pogba einhvern tímann óánægðan eða þannig að hann virtist vilja fara? Nei, í hreinskilni sagt þá sá ég hann aldrei leiðan eða óánægðan, þvert á móti. Allan þann tíma sem ég var í Manchester þá var Paul mjög ánægður með þá ákvörðun að hafa snúið aftur. Það skiptir hann miklu máli að standa sig vel fyrir Manchester United,“ sagði Darmian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×