Enski boltinn

Sturridge með tvö í sigri Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Sturridge, leikmaður Chelsea, skoraði tvö mörk í dag.
Daniel Sturridge, leikmaður Chelsea, skoraði tvö mörk í dag. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea vann í dag 3-1 sannfærandi sigur á skoska liðinu Rangers í æfingaleik í Skotlandi. Daniel Sturridge skoraði tvö marka Chelsea.

Nikica Jelavic kom Rangers yfir eftir aðeins sjö mínútna leik en þeir bláklæddu voru fljótir að jafna sig á því.

Sturridge skoraði bæði mörkin sín á átta mínútna kafla um miðbik fyrri hálfleiksins og kom Chelsea í 2-1 forystu.

Flerent Malouda skoraði svo þriðja mark Chelsea á 72. mínútu, tólf mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Frank Lampard misnotaði vítaspyrnu tveimur mínútum síðar.

Fernando Torres byrjaði í fremstu víglínu hjá Chelsea en Didier Drogba kom inn á í hans stað í hálfleik. Alls notaði Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, átján leikmenn í leiknum í dag.

Fleiri æfingaleikir voru á dagskrá í dag. Sunderland gerði markalaust jafntefli við annað skoskt lið, Hibernian, í dag. Guðlaugur Victor Pálsson byrjaði á bekknum en kom inn á eftir aðeins fimm mínútna leik.

Þá vann Blackburn 4-1 sigur á Kilmarnock. Jason Roberts skoraði tvö marka Blackburn og David Goodwillie, sem kom til félagsins í vikunni, opnaði markareikninginn í sínum fyrsta leik með Blackburn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×