Erlent

Sjö fundust látin eftir særingar­at­höfn í Panama

Atli Ísleifsson skrifar
Jose Gonzalez (til vinstri) fylgir lögreglukonu sem heldur á fimm ára dóttur hans, þar sem þau yfirgefa sjúkrahús í Santiago í gær. Eiginkona Gonzalez og fimm börn þeirra fundust í fjöldagröfinni.
Jose Gonzalez (til vinstri) fylgir lögreglukonu sem heldur á fimm ára dóttur hans, þar sem þau yfirgefa sjúkrahús í Santiago í gær. Eiginkona Gonzalez og fimm börn þeirra fundust í fjöldagröfinni. AP

Sjö lík hafa fundist í fjöldagröf á landsvæði frumbyggja í Panama sem stýrt er af sértrúarsöfnuði. Í gröfinni fundust lík barnshafandi konu og fimm barna hennar.

BBC greinir frá því að yfirvöld í Panama telji sértrúarsöfnuðinn hafa framkvæmt særingarathöfn með fórnarlömbunum í héraðinu Ngäbe-Buglé í norðvesturhluta landsins. Lögregla segir í aðgerðum hafi að fimmtán manns verið sleppt úr klóm forsvarsmanna sértrúarsafnaðarins.

Alls hafa tíu manns verið handteknir vegna gruns um morð. Saksóknarar í landinu greindu frá því í gær að málið sé til rannsóknar.

Saksóknarinn Rafael Baloyes segir að gröfin hafi fundist eftir að nágrannar höfðu gert lögreglu viðvart að fjölskyldum væri haldið gegn vilja sínum af forsvarsmönnum sértrúarsafnaðarins Nýs ljóss guðs.

Baloyes segir sértrúarsöfnuðinn hafa staðið fyrir athöfn sem miðaði að því að drepa fólkið, ef það myndi ekki iðrast synda sinna.

Hinir grunuðu verða leiddir fyrri dómara í dag eða á morgun, en heimildarmaður AFP segir að einn hinna handteknu sé faðir hinnar barnhafandi konu, lík hverrar fannst í gröfinni.

Svæðið sem um ræðir er mjög afskekkt, um 250 kílómetrum frá Panamaborg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.