Erlent

Lög­reglan í Ástralíu skaut á­rásar­mann til bana

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fimm særðust í árásinni og tveir af þeim alvarlega.
Fimm særðust í árásinni og tveir af þeim alvarlega. EPA/RICHARD WAINWRIGHT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT

Lögreglan í Vestur-Ástralíu skaut mann til bana eftir að hann stakk fjölda fólks með hníf í verslunarmiðstöð í bænum South Hedland í Pilbara héraðinu. Fimm slösuðust í árásinni og tveir þeirra eru alvarlega slasaðir.

Vitni sögðu í samtali við staðarmiðla að maðurinn hafi verið vopnaður „stórum hníf“ sem hann veifaði að almenningi og lögreglumönnum í verslunarmiðstöðinni áður en þau heyrðu mikla hvelli og öskur.

Fylkisstjóri Vestur-Ástralíu sagði í samtali við staðarmiðla að árásarmaðurinn hafi verið skotinn með rafbyssu af lögreglu en það hafi ekki stoppað hann. „Hann réðst að lögreglumönnunum og var síðan skotinn af þeim.“

Lögreglan segir að af manninum hafi stafað mikil hætta og biðlar til almennings að stíga fram ef myndbönd hafi náðst af atvikinu. Ekki hefur neitt komið fram um hvort árásin hafi verið hryðjuverk.

Árásin var framin um klukkan 10 að staðartíma á föstudag. Kona sem varð vitni að árásinni sagði í samtali við fréttastofu ABC að hún hafi flúið út úr verslunarmiðstöðinni eftir að hafa mætt manninum fyrir framan inngang miðstöðvarinnar. „Ég sá manninn sveifla risastórum hníf að konu sem var með smábarn í kerru,“ sagði Shelley Farquhar.

„Hann hætti við að ráðast á hana og fór inn vegna þess að ég var þar og sveiflaði hnífnum að mér,“ bætti hún við.

Lögreglan í Pilbara staðfesti að maðurinn sem lést var „manneskja sem lögreglan hafði nálgast og hann dó af skotsárum.“

„Lögreglan mun rannsaka það hvernig fólkið fékk áverkana,“ sagði í yfirlýsingu. South Hedland er lítill bær í Pilbara héraðinu í Vestur-Ástralíu. Pilbara er mjög dreifbýlt hérað og vinna flestir íbúar þess við námuiðnað eða annan iðnað sem tengist námuverkun.

Tilkynningar um árásarmanninn bárust frá þónokkrum vitnum og kom meðal annars fram að hann klæddist gulum vinnujakka. Enn hafa ekki verið borin kennsl á árásarmanninn.


Tengdar fréttir

Næst stærsta flugfélag Ástralíu í þrot

Næst stærsta flugfélag Ástralíu, Virgin Australia, hefur lýst yfir gjaldþroti og er því fyrsta ástralska stórfyrirtækið sem verður faraldrinum að bráð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×