Innlent

Leit lögreglu í Kópavogi hætt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglumenn við leit í kvöld.
Lögreglumenn við leit í kvöld. Vísir/Vilhelm

Leit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að manni í tengslum við alvarlegt atvik í Kópavogi fyrr í kvöld hefur verið hætt, en málavextir voru ekki með þeim hætti sem í fyrstu voru taldir, að því er fram kom í tilkynningu lögreglu sem barst skömmu fyrir klukkan níu í kvöld.

Það var upp úr klukkan átta sem fyrst var greint frá því að lögregla væri með mikinn viðbúnað við Salahverfi í Kópavogi og að fjöldi lögreglumanna væri að leita að manni sem talið var að hefði ráðist með hníf að fjórtán ára gömlum unglingi.

Klukkan 20:22 sendi lögreglan svo frá sér tilkynningu þar sem kom fram að leitað væri að manni sem ráðist hefði að tveimur unglingum um sexleytið í kvöld. Væri meðal annars notast við sporhunda við leitina og þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Mikill viðbúnaður var í Kópavogi í kvöld vegna málsins.Vísir/Vilhelm

„Maðurinn er talinn vera dökkklæddur, í hettupeysu og með sólgleraugu og grímu. Talið er mögulegt að hann hafi farið að Vífilsstaðavatni. Þeir sem kunna að hafa séð mann, sem lýsingin passar við, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 112,“ sagði í tilkynningu lögreglu.

Um korteri síðar varð ljósmyndari Vísis var við að dregið var úr viðbúnaði en ekki fengust strax upplýsingar frá lögreglu varðandi það hvort maðurinn væri fundinn eða hvort verið væri að fara að leita annars staðar. Var sagt að von væri á tilkynningu innan skamms.

Sú tilkynning barst síðan klukkan 20:52. Þar kom fram að leitinni að manninum hefði verið hætt og að málavextir voru ekki með þeim hætti sem í fyrstu voru taldir.

Ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en lögreglan þakkar öllum þeim sem veittu aðstoð við leitina í kvöld.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af aðgerðum lögreglu á vettvangi í kvöld.

Fréttin var uppfærð kl. 21:43 með myndbandi frá vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×