Innlent

Enn fleiri kirkjunnar þjónar ásakaðir um kynferðisbrot

Fjórir starfsmenn þjóðkirkjunnar voru sakaðir um kynferðisbrot á síðasta ári. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snýr eitt málið að Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi biskupi.

Fram kemur í skýrslu Fagráðsins þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota fyrir árið 2011 að allir einstaklingarnir sem sakaðir voru hafi starfað í þjónustu á vegum kirkjunnar. Einu þeirra mála var lokið um síðustu áramót af hálfu fagráðsins. Ekki er hægt að fá upplýsingar hversu margir einstaklingar leituðu til fagráðsins í fyrra eða hafa leitað til þess frá því það tók til starfa.

Gunnar Rúnar Matthíasson, formaður fagráðsins, vill ekki tjá sig um einstök mál og vísar í skýrsluna.

„Þetta er byggt upp þannig að einstök mál eru ekki sett fram sem slík," segir hann. „Ég vil ekki tjá mig um neitt umfram skýrsluna."

Síðan árið 1998, þegar fagráðið tók til starfa, hafa borist ásakanir um kynferðisbrot á hendur 18 einstaklingum sem hafa verið í þjónustu kirkjunnar. Af þessum málum voru sex enn á borði fagráðsins um síðustu áramót. Í þremur þessara 18 tilvika hefur fagráðinu borist fleiri en ein ásökun á hendur sama aðila.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur eðlilegt að víkja fólki úr starfi á meðan mál þess er skoðað.

„Það er mjög óeðlilegt að fólk sem sakað er um kynferðisbrot, og rökstuddur grunur er fyrir því, sé ekki sett í frí á meðan er verið að rannsaka málið," segir biskup. „En það má heldur ekki gleyma því að það eru til ásakanir sem koma fram án þess að fótur sé fyrir þeim."- sv / sjá síðu 6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×