Enski boltinn

Sá besti að mati Guardiola líklegastur sem næsti stjóri Gylfa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bielsea sat jafnan á klakaboxi meðan á leikjum Marseille stóð.
Bielsea sat jafnan á klakaboxi meðan á leikjum Marseille stóð. vísir/getty
Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa þykir líklegastur til að taka við enska úrvalsdeildarliðinu Swansea City sem Gylfi Þór Sigurðsson leikur með.

Gylfi og félagar eru stjóralausir eftir að Garry Monk var sagt upp störfum í síðustu viku. Alan Curtis stýrði Swansea í 2-1 tapinu fyrir Manchester City á laugardaginn en félagið hafði stefnt að því að ráða stjóra í þessari viku.

Sjá einnig: Messan: Gylfi hefur lent í gagnrýni vegna gengi liðsins

Hinn sextugi Bielsa er efstur á lista veðbanka yfir næsta stjóra Swansea en samkvæmt heimildum BBC Wales Sport er Huw Jenkins, stjórnarformaður félagsins, staddur í Suður-Ameríku.

Bielsa var síðast við stjórnvölinn hjá Marseille en hætti skyndilega eftir tap í 1. umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í haust. Hann hefur einnig þjálfað í Argentínu, Mexíkó og á Spáni og þá stýrði hann einnig landsliðum Argentínu og Chile.

Bielsa, sem er þekktur fyrir mikinn sóknarbolta og stífa pressuvörn, er einn áhrifamesti þjálfari seinni tíma en hann hafði t.a.m. mikil áhrif á Pep Guardiola sem gekk eitt sinn svo langt að kalla Argentínumanninn besta þjálfara í heimi.

Meðal annarra þjálfara sem eru undir miklum áhrifum frá Bielsa má nefna Maurico Pochettino, Diego Simeone, Jorge Sampaoli og Gerardo Martino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×