Erlent

Banna farþegaflug til og frá Argentínu fram í september

Kjartan Kjartansson skrifar
Argentínsk stjórnvöld lokuðu landamærunum 15. mars og bönnuðu flugferðir til og frá Bandaríkjunum og Evrópu daginn eftir.
Argentínsk stjórnvöld lokuðu landamærunum 15. mars og bönnuðu flugferðir til og frá Bandaríkjunum og Evrópu daginn eftir. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Argentínu hefur bannað allt millilanda- og innanlandsflug með farþega vegna kórónuveirufaraldursins til 1. september. Samtök flugfélaga segja að þúsundir manna gætu misst vinnuna fyrir vikið og alþjóðleg flugmálayfirvöld segja aðgerðirnar brot á samningum.

Gripið hefur verið til róttækra takmarkana til þess að hefta útbreiðslu faraldursins í Argentínu. Landamærunum var lokað fyrir öðrum en þeir sem búa í landinu í mars og strangar reglur um sóttkví eru í gildi.

Flugmálayfirvöld gáfu út tilskipun í dag um að flugfélögum væri bannað að selja miða í farþegaflug til eða frá Argentínu. Tilskipuninni væri ætlað að koma í veg fyrir að flugfélögin seldu miða í ferðir sem argentínsk yfirvöld hefðu ekki lagt blessun sína yfir. Nefndu yfirvöld 1. september sem skynsamlegan tíma til að leyfa miðasölu aftur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Alþjóðaflugmálastofnunin (IATA) sendi argentínsku ríkisstjórninni bréf um að ákvörðunin bryti gegn tvíhliða samningum og setti fleiri en 300.000 störf í hættu. Samtök flugfélaga í Rómönsku Ameríku og Karíbahafi (Alta) segja að ekki hafi verið haft samráð við iðnaðinn um ákvörðunina.

Tæplega 4.000 manns hafa greinst með nýtt afbrigði kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum í Argentínu og 192 hafa látið lífið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×