Erlent

Fyrsta skiptið í 20 ár sem maður er dæmdur fyrir morð

Króatískur karlmaður var fundinn sekur um manndráp í Færeyjum í gærkvöldi að því er Morgunblaðið greinir frá í dag.

Maðurinn var dæmdur fyrir að myrða Dánjal Petur Hansen, oftast kallaður Piddi, með steikarpönnu. Þetta er í fyrsta skiptið í 20 ár sem maður er dæmdur fyrir manndráp í Færeyjum.

Morðið átti sér stað í nóvember á síðasta ári. Raunar fundust líkamsleifar Dánjáls aldrei. Víðtæk leit var gerð að honum án árangurs. Fljótt vaknaði þó grunur á að honum hefði verið ráðinn bani.

Meðal annars fannst blóð og blóðslóð í stiga hússins sem hann bjó í. Síðar átti blóð eftir að finnast á jakka króatans, sem heitir Milan Kolovrats.

Þá var einnig blóð að finna í skotti bíls fyrirverandi eiginkonu Dánjáls, og ummerki um að reynt hefði verið að þrífa það.

Síðar kom einnig í ljós að Króatinn átt í ástarsambandi við fyrrverandi eiginkonu fórnarlambsins. Ekki er búið að kveða upp dóm yfir Króatanum en líklegt þykir að hann fái tólf ára dóm fyrir ódæðið. Milan hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og heldur því fram að hann hafi verið borinn röngum sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×