Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, kynnti í morgun nýja ríkisstjórn sína. Verulega er stokkað upp en fylla þurfti í skarð ráðherra úr röðum Framfaraflokksins eftir að flokkurinn ákvað að hverfa úr ríkisstjórn.
Í nýju ríkisstjórninni eru tólf ráðherrar úr Hægriflokki Solberg og fjórir bæði úr Venstre og Kristilega þjóðarflokknum.
Jan Tore Sanner, varaformaður Hægriflokksins, tekur við embætti fjármálaráðherra af Siv Jensen, formanni Framfaraflokksins.
Trine Skei Grande, formaður Venstre, hættir sem menningarmálaráðherra og verður nýr ráðherra menntamála og innflytjendamála. Knut Arild Hareide, fyrrverandi formaður Kristilegra demókrata, verður nýr samgönguráðherra, en núverandi formaður, Kjell Ingolf Ropstad, verður barna- og fjölskyldumálaráðherra. Þá verður Geir Inge Sivertsen frá Hægriflokknum sjávarútvegsráðherra í nýrri stjórn.
Hin 33 ára Tina Bru verður nýr olíu- og orkumálaráðherra en hún þykir ein af helstu vonarstjörnum norska Hægriflokksins. Bru tók sæti á norska þinginu fyrir Rogaland árið 2013, en í embætti ráðherra mun hún fara fyrir olíuvinnslu Norðmanna sem mun aukast mikið á næstu árum.
Abid Raja, þingmaður Venstre, er nýr menningarmálaráðherra Noregs og tekur við því embætti af Skei Grande, en hann táraðist er hann tók við lyklunum að ráðuneytinu fyrr í dag. Raja er af pakistönskum uppruma og flutti til Noregs á áttunda áratugnum. Hann tók sæti á þinginu árið 2013.
Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og fjármálaráðherra, greindi frá því 20. janúar að Framfaraflokkurinn hafði ákveðið að ganga út úr stjórnarsamstarfinu. Mikil óánægja hafði verið innan flokksins eftir að norsk stjórnvöld ákváðu að sækja norsk-pakistanska konu, sem hafði verið virk innan hryðjuverkasamtakanna ISIS, til Sýrlands ásamt tveimur börnum hennar.
Sjá má nýju ríkisstjórnina og skiptingu ráðherraembætta í frétt á vef NRK.