Enski boltinn

Keane og Agbonlahor lenti saman

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keane var ekki vinsæll á æfingasvæðinu.
Keane var ekki vinsæll á æfingasvæðinu. vísir/getty
Samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Mail rifust Roy Keane og Gabriel Agbonlahor heiftarlega áður en sá fyrrnefndi hætti sem aðstoðarþjálfari enska úrvalsdeildarliðsins Aston Villa í lok nóvember.

Heimildir Daily Mail herma að samband Keane, sem var fyrirliði Manchester United og írska landsliðsins á sínum tíma, og lykilmanna Villa hafi verið slæmt.

Skömmu eftir komu Keane lenti honum og Fabian Delph saman og þá á Írinn skapstóri að hafa hellt sér yfir leikmenn Villa eftir tapleiki.

„Andrúmsloftið var hræðilegt, allt frá því Keane mætti á svæðið,“ hefur Daily Mail eftir heimildamanni sínum.

„Andrúmsloftið varð niðurdrepandi í hvert sinn sem hann mætti á æfingasvæðið. Menn fögnuðu og var létt þegar hann hætti.“

Upp úr sauð þegar Keane truflaði samtal Pauls Lambert, þjálfara Villa, og fyrirliðans Agbonlahor á æfingasvæðinu. Leikmaðurinn sagði Keane að hætta að trufla þá og í kjölfarið rifust þeir svo heiftarlega að stía þurfti þeim í sundur.

Sama dag ræddi Lambert við Keane þar sem ákveðið var að slíta samstarfinu.

Aston Villa hefur þvertekið fyrir að deilur Keane og lykilmanna liðsins hafi verið orsakað brotthvarf hans. Opinberlega ástæðan sem félagið gaf út var að Keane ætti erfitt með að samhæfa starf sitt hjá Villa og starf sitt sem aðstoðarþjálfari írska landsliðsins. Fáir leggja hins vegar trúnað á þá ástæðu.

Keane, sem er 43 ára, verður seint talinn átakafælinn maður, en frægt er þegar honum lenti saman við Mick McCarthy, þjálfara Írlands, fyrir HM 2002 sem varð til þess að Keane yfirgaf æfingabúðir landsliðsins og spilaði ekki á mótinu.

Þá lenti honum einnig saman við Sir Alex Ferguson árið 2005, en illdeilur þeirra bundu enda á tólf ára dvöl Keane hjá Manchester United. Síðan hefur ekki gróið um heilt á milli þeirra, en báðir hafa þeir sagt frá sinni hlið á málinu í nýlegum ævisögum sínum.


Tengdar fréttir

Roy Keane sendi einn í burtu af hótelinu í sjúkrabíl

Roy Keane, aðstoðarþjálfari írska landsliðsins, missti stjórn á skapi sínu á hóteli írska landsliðsins aðeins 48 tímum fyrir leik liðsins í undankeppni EM. Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum í morgun




Fleiri fréttir

Sjá meira


×