Innlent

Þyrlan send eftir göngufólki sem hafði seinkað ferðaáætlun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kristján Björn Arnar, flugvirki og spilmaður, um borð í TF-GRO í nótt.
Kristján Björn Arnar, flugvirki og spilmaður, um borð í TF-GRO í nótt. Landhelgisgæslan

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var tvívegis ræst út í gærkvöldi og nótt. Annars vegar vegna veiks sjómanns og hins vegar vegna tveggja göngugarpa sem höfðu ekki skilað sér til byggða.

Vísir hafði áður greint frá þeim fyrrnefnda. Maðurinn hafði verið við veiðar austur af Vestmannaeyjum í gærkvöldi og var fluttur til Reykjavíkur til aðhlynningar. Í samtali við Vísi í gærkvöld sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, að ekki væri um kórónuveiruveikindi að ræða.

Þyrlan var aftur send af stað í nótt, nú vegna göngumanna sem ekkert hafði spurst til en talið var að hefðu reynt að klífa Þverártind. TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á þriðja tímanum en áhöfnin er sögð hafa haft meðferðis nætursjónauka, hitamyndavél og búnað til að finna farsíma.

Stuttu eftir að þyrlan hélt frá Reykjavík fannst fólkið heilt á húfi en það hafði seinkað upphaflegri ferðaáætlun. Þyrlan sneri því við og lenti aftur í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×