Erlent

Nafn­greina grunaðan morðingja Nips­ey Huss­le

Atli Ísleifsson skrifar
Platan Victory Lap var tilnefnd til Grammyverðlauna í ár.
Platan Victory Lap var tilnefnd til Grammyverðlauna í ár. Getty
Lögregla í Los Angeles hefur nafngreint manninn sem grunaður er um að hafa banað rapparanum Nipsey Hussle fyrir utan fataverslun hans í borginni á sunnudag.

Lögregla hefur lýst eftir manni að nafni Eric Holder í tengslum við málið en henni hefur enn ekki tekist að hafa hendur í hári hans.

Lýst var eftir Holder skömmu eftir að nítján manns slösuðust, þar af fjórir alvarlega, eftir að þeir tróðust undir í minningarahöfn um rapparann í gærkvöldi.

Margir í tónlistarheiminum hafa minnst Nipsey Hussle, sem varð 33 ára, en fyrsta plata hans, Victory Lap, var tilnefnd til Grammyverðlauna í ár sem besta rappplata ársins.

Hussle, sem hét Ermias Davidson Asghedom réttu nafni, ólst upp í suðurhluta Los Angeles og var liðsmaður glæpagengisins Rollin' 60s þegar hann var á táningsaldri.

Á síðustu árum lét hann samfélagsleg málefni sér varða og aðstoðaði fólk sem átti erfitt uppdráttar við að fá vinnu. Þá gaf hann öllum börnum grunnskóla í hverfinu eitt sinn skó og fjármagnaði endurbætur á leiktækjum og körfuboltavelli skólans.

Að neðan má sjá myndskeið frá minningarathöfninni í Los Angeles í gærkvöldi.




Tengdar fréttir

Rapparinn Nipsey Hussle skotinn til bana

Lögreglan í Los Angeles segir að rapparinn Nipsey Hussle, sem tilnefndur var til Grammy verðlauna á árinu, hafi verið skotinn til bana í suðurhluta borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×