Erlent

Tilfellum fjölgar í fátækari ríkjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Smituðum hefur fjölgað um helming, fimmtíu prósent, í Venesúela síðustu vikuna.
Smituðum hefur fjölgað um helming, fimmtíu prósent, í Venesúela síðustu vikuna. EPA/RAYNER PENA R

Rúmlega tvær komma sjö milljónir hafa nú smitast af kórónuveirunni í heiminum. Hundrað og níutíu þúsund hafa látist. Á meðan það hægist á útbreiðslunni í Evrópu er búist við því að staðan versni í fátækari heimshlutum.

Kínverjar hafa þegar dregið verulega úr þeim takmörkunum sem voru settar á vegna faraldursins enda hefur fjöldi nýrra smitaðra dregist mikið saman. Hér í Evrópu ræða fjölmörg ríki nú um það hvernig eigi að aflétta aðgerðum. Telja sig komin yfir brattasta hjallan.

Þótt staðan sé enn langverst í Bandaríkjunum, þar sem nærri níu hundruð þúsund hafa smitast, er sömuleiðis farið að hægjast á fjölgun smitaðra þar. Tugir þúsunda nýrra smita greinast þó enn á dag.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa ítrekað reynt að vekja athygli á því undanfarnar vikur að það sé þörf á samstilltu átaki til að koma í veg fyrir hamfarakennt ástand í fátækustu ríkjum heims. Nú bendir margt til þess að faraldurinn gæti tekið kipp á þeim svæðum.

Tilfellum fjölgar ört í Suður-Ameríku. Í Venesúela, fátækasta ríki álfunnar, hefur smituðum fjölgað um helming síðastliðna viku. Sömu sögu er að segja frá Afríku, þar sem veiran hefur nú greinst í nærri öllum ríkjum. Tilfellum hefur fjölgað úr átján þúsundum fyrir viku í um 27 þúsund í dag og búist er við frekari aukningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×