Fótbolti

Kea­ne stendur með leik­mönnunum í launa­um­ræðunni: „Kemur engum við hvað þú gerir við launin þín“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Roy Keane.
Roy Keane. Vísir/getty

Sjöfaldi enski meistarinn Roy Keane stendur með leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í launaumræðunni sem er ansi hávær þessa daganna á Englandi en knattspyrnumenn hafa verið gagnrýndir fyrir að taka ekki á sig veglega launalækkun vegna kórónuveirunnar.

Æðstu menn Englands hafa meðal annars skotið föstum skotum í átt að leikmönnum enska boltans og beðið þá um að taka á sig veglega launalækkun en ansi fá lið hafa til þessa ráðist í einhverjar skerðingar.

„Ég er ekki viss um hvernig ég hefði brugðist við þessu. Margir leikmenn hafa verið gagnrýndir en eins og ég lít á þetta núna þá myndi ég ekki taka á mig launalækkun ef ég væri í einu af stóru félögunum,“ sagði Keane við Sky Sports í morgun.

„Það kemur engum við hvað þú gerir við launin þín. Ég held að leikmennirnir séu ekki undir pressu frá félögunum. Þeir hafa skrifað undir samninginn. Það er það sem skiptir máli. Hugyndin að allir leikmenn eiga að taka á sig launalækkun er rugl.“

„Ég er hissa á öllum þeim sem eru að hoppa á vagninn og gagnrýna leikmennina því þetta kemur þeim ekki við,“ sagði Keane grjótharður eins og vanalega. Hann liggur ekkert á skoðunum sínum og segir að þó að einhverjir leikmenn vilji full laun á þessum tímum segir það ekkert til um þeirra persónuleika.

„Hjá stærri félögunum eru peningarnr til fyrir leikmennina. Ég held að það sé ósanngjarnt að eitt gangi yfir alla því þú ert til að mynda í búningsklefanum hjá Man. United með mismunandi persónuleika og allir geta haft sína skoðun. Þetta er undir leikmönnunum komið einstaklingslega. Sumir sem myndu þiggja full laun væru svo kannski besta fólkið á jörðinni. Ég myndi klárlega berjast með leikmönnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×