Fótbolti

Ætlaði að kaupa íbúðir en Persie sagði honum að vinna með skallatæknina og fyrstu snertinguna því þá yrði hann ríkari

Anton Ingi Leifsson skrifar
Robin van Persie var magnaður markaskorari en hér sést hann á úrvalsdeildinni í pílu fyrr á árinu.
Robin van Persie var magnaður markaskorari en hér sést hann á úrvalsdeildinni í pílu fyrr á árinu. vísir/getty

Robin Van Persie var í ansi fróðlegu viðtali hjá Jake Humphrey, fréttamanni BT Sport á dögunum, en í hlaðvarpsþætti fóru þeir yfir víðan völl og ræddu meðal annars um áhugavert samtal sem Hollendingurinn átti við félaga sinn á sínum tíma.

Persie sagði að hann og þessi ónefndi leikmaður hefðu setið lengi að spjalli. Leikmaðurinn hafi viljað kaupa íbúðir til þess að græða meiri pening en Persie var viss um að hann hefði mun betri leið til þess að hann gæti grætt enn meiri pening.

„Ég átti spjall við kollega minn og ég vil ekki segja hvað hann heitir því hann er enn að spila,“ sagði Persie áður en hann hélt áfram. „Ég hlustaði á hann í klukkutíma og var byrjað að leiðast.“

„Hann ætlaði að kaupa 50 íbúðir og var að segja að hann gæti grætt þetta og hitt á hverri íbúð. Svona myndi hann græða peninga en hann var að spila í ensku úrvalsdeildinni. Eftir klukkutíma spurði hann mig hver mín skoðun væri og ég spurði til baka hvort að hann myndi virkilega vilja það?“

„Hann sagði já, auðvitað. Ég sagði í hreinskilni sagt að ef hugmynd þín er að eignast peninga þá er það fínt. Ef það er ástæðan fyrir því að þú ert að spila. Frábært. Það er þín ákvörðun en ef þú vilt eignast peninga ættiru að vinna með skallatæknina og fyrstu snertinguna.“

„Þetta er það sem þú ættir að vera vinna með því ef þú vinnur með þessi atriði muntu græða tíu sinnum meira en á þessum íbúðum. Hann sagði að ég væri að grínast en ég svaraði því að mér væri alvara. Ef þú bætir það ertu heimsklassa leikmaður.“

Aðspurður sagði Persie að hann hefði ekki hlustað á hann en þó átt góðan feril.

„Hann hlustaði ekki á mig en til þess að gæta allri sanngirni átti hann góðan feril. Hann hefði þó getað verið betri!“ sagði Hollendingurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×