Fótbolti

Hvaða ungi leikmaður hefur skarað fram úr í ensku úrvalsdeildinni í vetur?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er Trent Alexander-Arnold besti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni?
Er Trent Alexander-Arnold besti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni? EPA-EFE/PETER POWELL

Ætli Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Liverpool, sé ekki augljósasta svarið en alls tóku fimm pistlahöfundar The Athletic saman fimm unga leikmenn sem hafa skarað fram úr í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili.

Trent Alexander-Arnold (Liverpool)

Alexander-Arnold er augljósasta valið á besta unga leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar. Eftir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu aðeins tvítugur að aldri með Liverpool þá hefur þessi enski hægri bakvörður verið stórkostlegur í vetur. Er hann ein af ástæðum þess að Liverpool eru með níu fingur á Englandsmeistaratitlinum þrátt fyrir að enn séu níu umferðir eftir.

Fyrirgjafir Alexander-Arnold eru að öllum líkindum þær bestu í deildinni og líklega Evrópu. Hann er nánast leikstjórnandi í stöðu hægri bakvarðar. Líkt og í fyrra er bavörðurinn búinn að leggja upp tólf mörk í úrvalsdeildinni en það eru enn níu leikir eftir af þessu tímabili.

Það kemur eflaust ekki á óvart að Andy Robertson, vinstri bakvörður Liverpool, er næstur á listanum yfir stoðsendingahæstu varnarmenn deildarinnar. Robertson hefur lagt upp sjö mörk á leiktíðinni.

Mikil umræða er hvort Alexander-Arnold verði á endanum færður á miðjuna svo hann geti stjórnað leikjum þaðan. Líkt og Philip Lahm gerði undir stjórn Pep Guardiola hjá Bayern Munich. Mögulegt er að Gareth Southgate prófi það hjá enska landsliðinu þar sem Englandingar eru ekki á flæðiskeri staddir með hægri bakverði.

Wilfrid Ndidi (Leicester City)

Það þarf ákveðna týpu af miðjumanni sem getur verið einn á bakvið tvo framliggjandi miðjumenn á borð við James Maddison og Youri Tielemans. Ásamt því að vera frábær varnartengiliður sem situr fyrir framan vörnina og brýtur niður sóknir þá býður Ndidi einnig upp á ógn sóknarlega.

Hann átti til að mynda stóran þátt í marki Jamie Vardy í 2-1 sigrinum á Everton og þá jafnaði hann metin gegn Chelsea á Brúnni með góðum skalla.

Þegar N‘Golo Kante fór frá Leicester City til Chelsea þá var reiknað með að Leicester gæti aldrei fundið leikmann af svipaðri getu. Ndidi á stóran þátt í því að Leicester eru fyrir ofan Chelsea í töflunni svo mögulega tókst þeim að finna verðugan eftirmann Kante.

Ndidi hefur verið mikið frá vegna meiðsla síðan um áramótin en hann nýtir þann tíma í endurhæfingu og nám. Hann stundar nám við De Montfort háskólann ásamt því að spila í ensku úrvalsdeildinni.

Jack Grealish (Aston Villa)

Jack Grealish er óumdeilanlega besti leikmaður Aston Villa á tímabilinu. Hann hefur skorað flest mörk, skapað flest færi og átt flestar heppnaðar sendingar í Villa liðinu.

Grealish er hins vegar svo mikið meira en bara frábær tölfræði. Hann er týpa af leikmanni sem finnst ekki oft. Vissulega hefur hann gert sín mistök líkt og þegar hann fór á djammið í miðju útöngubanni.

„Hann er bara svo fjandi svalur,“ segir Jack Lang í grein The Athletic. Hvernig hann er með sokkana sína, hann er með svo litlar legghlífar að þær kallast varla hlífar og þá hefur hann spilað í skóm sem eru við það að detta í sundur.

Adama Traore (Wolverhampton Wanderers)

Traore varð 24 ára í janúar svo hann rétt sleppur inn á listann. Traore, sem var líkt við Usain Bolt á sínum yngri árum, hefur átt frábært tímabil með Wolves. Ásamt því að vera hraðari en flestir leikmenn deildarinnar þá er hann einnig með sterkustu leikmönnum deildarinnar.

Traore hefur skorað fjögur mörk á leiktíðinni ásamt því að leggja upp önnur sjö. Aðeins Kevin De Bruyne, Alexander-Arnold og Riyad Mahrez hafa lagt upp fleiri. Framlag hans til Wolves er samt svo mikið meira en aðeins mörk og stoðsendingar. Mótherjar liðsins eru svo hræddir við hann að þau reyna sífellt að brjóta á honum eða þá að tvídekka hann.

Sjá einnig: Hann er eins og Sauron með hringinn

Sönnun þess er að í desember höfðu 24 leikmenn deildarinnar verið spjaldaðir fyrir að brjóta á Traore. Það virðist einfaldlega vera eina leiðin til að stöðva Traore þessa dagana.

Daniel James (Manchester United)

Eftir frábæra byrjun þá hefur Daniel James aðeins dalað, eðlilega miðað við að hann er á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni. James var næstum farinn á láni til Yeovil Town í ensku D-deildinni aðeins ári áður en hann gekk í raðir Manchester Untied. Skömmu síðar var hann að skora gegn Chelsea fyrir framan troðfullan Old Trafford.

Ef horft er til þess að leikmaðurinn missti faðir sinn síðasta sumar rétt áður en hann skrifaði undir hjá Man Utd þá hefur hann átt góðu gengi að fagna í vetur. Hann byrjaði veturinn frábærlega og skoraði þrívegis í ágúst.

Þó mörkunum hafi aðeins fækkað þá eru þrjú mörk og sex stoðsendingar í heildina nokkuð gott fyrir leimann á sínu fyrsta ári. Sérstaklega ef horft er til þess að hann hefur spilað mismunandi stöður í leikkerfum Ole Gunnar Solskjær í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×