Fótbolti

Knattspyrnusamband Evrópu hefur staðfest að EM kvenna fari fram 2022

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslenska landsliðið stefnir á að vera meðal þeirra þjóða sem taka þátt í EM í Englandi.
Íslenska landsliðið stefnir á að vera meðal þeirra þjóða sem taka þátt í EM í Englandi. Vísir/Bára

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú staðfest að EM kvenna muni fara fram frá 6. til 21. júlí sumarið 2022. Þetta segir í yfirlýsingu frá UEFA.

Upprunalega átti mótið að fara fram sumarið 2021 en vegna þess að EM karla sem og Ólympíuleikarnir í Tókýó, sem fara áttu fram í sumar, var frestað um ár var ákveðið að færa EM kvenna um eitt ár.

Forseti UEFA, Aleksander Ceferin, segir að með því fái keppnin þá athygli sem hún á skilið. Með færslunni verður EM eina stórmótið í knattspyrnu það sumarið og fær því að njóta sín töluvert betur segir Ceferin einnig.

Þá höfðu Bretland, Svíþjóð og Holland tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum og því hefði verið erfitt að halda EM í kjölfarið, hvað þá á sama tíma.

Nadine Kessler, yfirmaður kvennaknattspyrnu hjá UEFA, tekur í sama streng.

„Þessi ákvörðun setur okkur í stöðu þar sem við getum tryggt að mótið fái heimsathygli, þannig náum við að auka fjölmiðla umfjöllun, áhorfendafjölda og tryggja að veitt ungum iðkendum innblástur.“

Mótið fer fram í Englandi og fer fyrsti leikur mótsins fram á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Þá mun úrslitaleikurinn fara fram á Wembley.

Ísland var með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í undankeppni EM með markatöluna 11:1. Næsti leikur liðsins er gegn Svíþjóð á heimavelli en Svíar eru í efsta sæti riðilsins með betri markatölu en íslenska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×