Innlent

Verktakar bitust hart um fyrstu flýtiverkin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stærsta verkið er breikkun Suðurlandsvegar í Reykjavík á kaflanum milli Vesturlandsvegar og Rauðavatns. Verkinu á að ljúka fyrir 1. nóvember.
Stærsta verkið er breikkun Suðurlandsvegar í Reykjavík á kaflanum milli Vesturlandsvegar og Rauðavatns. Verkinu á að ljúka fyrir 1. nóvember. Vísir/KMU.

Lægstu tilboð voru vel undir áætluðum verktakakostnaði í sex útboðsopnunum af átta hjá Vegagerðinni í gær, eða á bilinu 75-90 prósent af áætlun. Í tveimur opnunum reyndust lægstu boð yfir kostnaðaráætlun. Meðal annars var verið að opna tilboð í fyrstu verkin á flýtilista Alþingis um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, sem samþykkt var í lok marsmánaðar.

Stærsta útboðið, sem opnað var, er tvöföldun Suðurlandsvegar norðan Rauðavatns í Reykjavík, frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi og Hádegismóum. Fimm tilboð bárust og reyndust öll undir áætluðum verktakakostnaði upp á 491 milljón króna. Lægsta boð kom frá Óskataki ehf. í Kópavogi, upp á 402 milljónir króna, eða 82 prósent af áætluðum kostnaði. Næstlægsta boð átti Ístak, upp á 450 milljónir króna, eða 92 prósent af áætluðum kostnaði.

Sjá nánar um verkið: Fyrsta flýtiverkið boðið út og skal lokið á fimm mánuðum

Næst stærsta útboðsverkið er malbiksyfirlagnir á Norður- og Austursvæði árið 2020. Þar bárust þrjú tilboð og voru öll einnig undir kostnaðaráætlun upp á 320 milljónir króna. Lægsta boð átti Malbikun Akureyrar, upp á 265 milljónir króna, eða 83 prósent af áætlun.

Bæta á innsigluna í Hornafjörð með gerð sandfangara.Mynd/Sveitarfélagið Hornafjörður.

Þriðja stærsta verkið er gerð sandfangara fyrir Hornafjarðarhöfn, 205 metra langs garðs milli Einholtskletta og Suðurfjöru. Tvö tilboð bárust, það lægra frá JG-vélum í Reykjavík upp á 179 milljónir króna, og reyndist það 90 prósent af 199 milljóna króna kostnaðaráætlun.

Í lagningu slitlags á Hamarsveg í Gaulverjabæ í Flóa átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi lægsta boð, 69 milljónir króna, eða 76 prósent af áætlun en öll þrjú tilboðin reyndust undir henni.

Flest tilboðin, eða níu talsins, bárust í kantlýsingu fyrir Hvalfjarðargöng. Þar bauð Orkuvirki ehf. í Reykjavík lægst, eða 52 milljónir króna, sem reyndist 76 prósent af 69 milljóna króna kostnaðaráætlun.

Í gerð varnargarðs gegn Kötluhlaupum austan Víkur í Mýrdal bárust tvö tilboð, það lægra frá Framrás ehf. í Vík, 44 milljónir króna, eða 82 prósent af 54 milljóna króna áætlun, en það hærra var frá Snilldarverki ehf. í Riddaragarði á Hellu, upp á 49 milljónir króna, eða 92 prósent af áætlun.

Hér má fræðast nánast um það verk:

Verkin tvö sem fengu tilboð yfir áætluðum verktakakostnaði eru: Viðgerðir á malbikuðum slitlögum 2020-2022 á Vestursvæði, en þar átti Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas í Hafnarfirði lægra boð af tveimur, upp á 29 milljónir króna, eða 119 prósent af 24 milljóna króna áætlun. Hitt verkið er stækkun ferjubryggju í Flatey á Breiðafirði ásamt sjóvörn. Þar átti Bryggjuverk í Keflavík lægra boðið, 45 milljónir króna, sem er 125 prósent af 36 milljóna króna áætlun.

Loks má nefna að fyrr í mánuðinum voru opnuð tilboð í gerð nýs 2,6 kílómetra vegarkafla í Ísafjarðardjúpi, um Hattardal í Álftafirði, sunnan Súðavíkur, ásamt smíði 17 metra langrar brúar. Þrjú tilboð voru öll yfir áætluðum verktakakostnaði, upp á 226 milljónir króna. Lægsta boð kom frá Tígri ehf. í Súðavík, 242 milljónir króna, sem var 107 prósent af áætlun.


Tengdar fréttir

Malbikið lengist í Grafningi í sumar

Vegagerðin hefur boðið út endurbyggingu fimm kílómetra langs kafla í Grafningi sunnan Úlfljótsvatns, milli Hlíðarár og Grafningsvegar efri. Vegarkaflinn verður byggður upp og lagður bundnu slitlagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×