„Menn hafa veður af því að fólk vilji sjá þetta gos og því var ákveðið að manna lokanirnar svo hægt sé að fylgjast með að fólk fari ekki framhjá lokununum,“ segir Bergþóra Njála Guðmundsdóttir í fjölmiðlateymi samhæfingar. Þó hafa engar mannaferðir verið umhverfis svæðið frá því að gos hófst skömmu eftir miðnætti í nótt. Hún segir ekki ljóst hvort eiturefni séu í lofti, en að svo stöddu greinist engin aska á radar.
„Það er enga ösku að sjá en það er auðvitað niðamyrkur og stutt síðan gosið hófst,“ segir Berþóra.
Almannavarnir lokuðu fyrr í vikunni leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla, ásamt nokkrum leiðum upp úr Bárðardal og við Grænavatn. Þá er vegurinn við Dettifoss einnig lokaður.
