Innlent

Sérfræðingur Veðurstofunnar: Sprungan er nokkur hundruð metra löng

Stefán Árni Pálsson skrifar
Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar.
Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar. visir/sáp
„Það sem við vitum núna er að við höfum fengið staðfestingu um eldgos í gegnum vefmyndavélar ,“ segir Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar, í samtali við Vísi í nótt en hún var stödd í höfuðstöðvum Veðurstofu Íslands.

Hraungos er hafið norðan Dyngjujökuls. Vefmyndvélar Mílu sýna að kvika streymir upp á yfirborðið. Kvikan hefur náð að brjóta sér leið upp á yfirborðið norðan jökulsins á íslausu svæði.

„Vísindamenn hafa einnig staðfest að um flæðandi kviku sé að ræða.“

Gosið er í Holuhrauni norðan Dyngjujökuls þar sem sprungur hafa verið að myndast í hrauninu og við jökulsporðinn.

„Það sem við sjáum núna er að sprungan er nokkur hundruð metra löng þar sem kvikan kemur upp,“ segir Melissa, þrátt fyrir að hafa talað um fjögurra kílametra langa sprungu í myndbandinu. Fréttamaður ráðfærði sig aftur við sérfræðinginn og þá hafði hún mismælt sig.

Vísindamenn urðu varir við breytingar í norðvestanverðum Vatnajökli þegar farið var í vísindamannaflug með TF-SIF yfir jökulinn í gær.

Í fluginu sáust grunnir sigkatlar og sprungur 4–6 km langar við suðaustanverða Bárðarbungu. Þarna er um 400 til 600 metra þykkur ís. Svæðið er við vatnaskil Jökulsár á Fjöllum og Grímsvatna.

„Þetta gos er á öðru svæði en þar sem vísindamennirnir urðu varir við sigkatlana í gær. Þetta gos er um fimm kílómetra norður af Dyngjujökli.“


Tengdar fréttir

Eldgos hefur ekki áhrif á flugumferð

"Við sjáum ekki á þessu stigi að þetta hafi áhrif á flug okkar. Hugsanlega yrðu minniháttar breytingar gerðar en ekki mikið meira en það.“

Skjálfti af stærð fimm við Bárðarbungu

Jarðskjálfti af stærðinni 5 stig reið yfir 6,9 kílómetra austnorðaustur af Bárðarbungu korter yfir átta í morgun. Skjálftinn varð á þriggja kílómetra dýpi.

Sigkatlarnir ekki stærri

Vísindamenn um borð í TF-SIF, flugvéla Landhelgisgæslunnar sem nú er á flugi yfir Vatnajökli, telja að sigkatlarnir sem sáust í gær hafi ekki stækkað í nótt.

Gosið hófst upp úr miðnætti

„Það eru sömu upplýsingar og við erum að fá,“ segir Rögnvaldur Ólafsson í Samhæfingarmiðstöð Almannavarna í samtali við Vísi aðspurður hvort gosið hafi minnkað töluvert.

Sérfræðingarnir farnir í loftið

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hélt í morgun ásamt sérfræðingum Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands í eftirlitsflug í flugi TF-SIF á Vatnajökul.

Fundað í samhæfingarmiðstöðinni

Á annan tug manns eru mættir til vinnu í Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð sökum þess að eldgos er hafið í Holuhrauni á milli Dyngjujökuls og Öskju norðan við Vatnajökul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×