Enski boltinn

Grímuklæddir menn rændu hús Ashley Cole og hann var heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole vann marga titla með Chelsea og þar á meðal Meistaradeildina árið 2012.
Ashley Cole vann marga titla með Chelsea og þar á meðal Meistaradeildina árið 2012. Getty/Ben Radford

Gamli stjörnubakvörðurinn Ashley Cole varð fyrr mjög óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum.

Ashley Cole var heima hjá sér þegar innbrotsþjófar komu í heimsókn. Þeir voru grímuklæddir og létu greipar sópa um heimilið hjá Cole. Daily Mirror segir frá en það gera líka aðrir enskir miðlar.

Mennirnir voru nokkrir saman og það bendir allt til þess að ránið hafi verið vel skipulagt. Þeir voru með lambhúshettur og í klæðnaði í felulitum.

Þjófarnir komu inn í húsið að aftanverðu og fóru í burtu með mikið verðmæti í skartgripum sem voru í eigu Ashley Cole og konu hans.

„Þetta var hræðileg lífsreynsla. Þjófarnir voru mjög fagmannlegir og vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Þeir höfðu greinilega undirbúið sig með því að skoða aðstæður áður,“ sagði heimildarmaður Daily Mirror.

Sumir enskir miðlar hafa farið svo langt að greina frá því að þjófarnir hafi bundið Ashley Cole niður í stól á meðan þeir fóru um húsið en þær fréttir hafa ekki fengið staðfestar.

Ashley Cole er 39 ára gamall og fyrrum leikmaður Arsenal, Chelsea og enska landsliðsins. Hann vann ensku deildina tvisvar með Arsenal og einu sinni með Chelsea. Þá varð hann enskur bikarmeistari sjö sinnum með þessum tveimur Lundúna félögum.

Ashley Cole lék 107 landsleiki fyrir England en hann endaði feril sinn með Derby County á 2018-19 tímabilinu en lék þar á undan með Roma á Ítalíu og Los Angeles Galaxy í Bandaríkjunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.