Innlent

Samkomubann og forðun gildir um starfsmenn skóla og foreldra

Kjartan Kjartansson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna þríðjudaginn 21. apríl 2020.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna þríðjudaginn 21. apríl 2020. Lögreglan

Ekki mega vera fleiri en fimmtíu starfsmenn leik- og grunnskóla eða foreldrar í kringum börn þrátt fyrir að hefja megi skólahald með óbreyttum hætti 4. maí. Fullorðnir þurfa ennfremur að virða tveggja metra nándarreglu þó að börnin verði henni undanþegin.

Almannavarnir og sóttvarnalæknir hafa sagt að skólahald geti hafist með hefðbundnu sniði þegar byrjað verður að slaka á aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins mánudaginn 4. maí. Þá stendur meðal annars til að hækka hámarksfjölda fólks sem má koma saman úr tuttugu í fimmtíu.

Skólastarfinu verða engu að síður setta ákveðnar skorður. Þannig sagði Víði Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að bann við samkomum fimmtíu manns eða fleiri muni gilda fyrir fullorðna einstaklinga í skólunum, jafnt starfsfólk sem foreldra. Fullorðnir þurfi ennfremur að virða tveggja metra nándarregluna en ekki börnin.

Á skólasamkomum eins og vorhátíðum eða útskriftum verður fjöldi fullorðinna einnig takmarkaður við fimmtíu manns. Sagði Víðir að opið væri fyrir að skólar færu í vorferðir og önnur ferðalög að uppfylltum skilyrðum.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagði að öll starfsemi sem snýr að börnum verði með eðlilegum hætti eftir 4. maí í viðtali við Ríkisútvarpið í dag. Það ætti við um leik- og grunnskóla en einnig íþrótta- og tómstundastarf.

Búist er við því að ráðherrann birti auglýsingu um hvernig aðgerðum til að hefta útbreiðslu veiruna frá 4. maí verður háttað í dag eða á morgun.

Á upplýsingafundinum í dag sagði Víðir einnig að í auglýsingunni um breyttar aðgerðir verði kveðið á um breytingar sem geri líkamsræktarstöðvum, sem hefur þurft að loka vegna samkomubannsins, kleift að standa fyrir ákveðnum skipulögðum æfingum utandyra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.


Tengdar fréttir

Telja óhætt að hefja skólahald með hefðbundnu sniði

Sóttvarnalæknir telur óhætt að aflétta takmörkunum á skólastarfi í leik- og grunnskólum, þar á meðal tveggja metra reglunni, eftir fyrstu helgina í maí. Börn séu ekki talin þungamiðja í sóttvarnaráðstöfunum í kórónuveirufaraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×