Innlent

Yfirlögregluþjónn segir að skólahald ætti að geta orðið líkt og fyrir samkomubann eftir 4. maí

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Reglan um tveggja metra fjarlægð á milli fólks mun áfram gilda í skólum eftir 4. maí að sögn menntamálaráðherra. Skólastjórnendur hafa lýst yfir áhyggjum af því að þessar reglur muni hafa veruleg áhrif á skólastarf. Yfirlögregluþjónn sagði á fundi almannavarna í dag að skólahald ætti þá að geta orðið líkt og fyrir samkomubann.

Skólastjórnendur hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni í grunnskólum vegna kórónuveirunnar og sagði skólastjóri Seljaskóla í fréttum fyrir helgi að skólastarf gæti ekki farið fram með eðlilegum hætti ef reglan um tvo metra á milli barna og takmörk um færri en fimmtíu manns á sama svæði taki til leik- og grunnskóla.

„Tillaga sóttvarnarlæknis og ákvörðun heilbrigðisráðherra ræður hvað þetta varðar og við verðum að taka tillit til þess. Ég hef líka heyrt í ótal skólafólki um allt land sem segir, jú þetta er áskorun en við gerum það sem þarf,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Þannig þú ert að segja að reglan muni gilda í grunnskólum- og leikskólum?

„Reglan gildir, já,“ sagði Lilja.

Lilja AlfreðsdóttirVísir/vilhelm

Skólastjórnendur verði því að skipuleggja skólastarf eftir þessum reglum. Verið sé að útfæra þá framkvæmd að skólasund og íþróttir í skólum geti farið fram.

Yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum segir hins vegar að útfærslan í minnisblaði frá sóttvarnarlækni eigi að gera það að verkum að skólahald geti orðið líkt og það var fyrir samkomubann.

„Við ætlum að gera það að verkum að sú hugsun sem var í upphafi að skólastarf leik- og grunnskóla og íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólahaldi geti frá og með 4. maí verið með nánast óheftum hætti eins og aðstæður leyfa en það má segja að það verði eins og það var fyrir fyrsta samkomubann,“ sagði Víðir Reynisson.

Samtal er nú á milli skólastjórnenda og þeirra hópa sem eru í hvað mestri brottfallshættu auk þeirra barna sem hafa verið félagslega einangruð.

„Kennararnir eru að tala við þá nemendur sem eru í viðkvæmri stöðu. Ég heyri það líka á fræðsluyfirvöldum um allt land að það sé verið að nálgast þetta með þessum hætti. Þetta verður mikil vinna en við getum farið í hana,“ sagði Lilja.

Reglur um skólasókn verði áfram sveigjanlegar.

„Ég hvet auðvitað alla til þess að sinna þeirri fræðsluskyldu sem uppi er en ég segi líka að við verðum að sýna ákveðinn sveigjanleika þegar það eru inni á heimili einstaklingar með mikla undirliggjandi sjúkdóma þá þarf að taka tillit til þess,“ sagði Lilja.

Fréttin var uppfærð kl 21:21 með upplýsingum frá menntamálaráðherra: Nú er í gildi takmörkun á skólahaldi, á öllum skólastigum, sem gerir það að verkum að leikskólabörn eru eins aðskilin og kostur er, og að nemendur í grunnskóla skuli ekki vera fleiri en 20 nemendur í sömu stofu, til að tryggja eins mikla fjarlægð á milli þeirra eins og unnt er. Áréttað skal að ákvörðun um það hvernig takmörkunum á skólastarfi verður aflétt mun koma fram í auglýsingu frá heilbrigðisráðuneytinu. Auglýsingin er enn í vinnslu heilbrigðisráðuneytis. Hún verður birt á allra næstu dögum. Mikilvægt er að horfa til þess að ólíkar takmarkanir eru á skólastarfi eftir aldri nemenda


Tengdar fréttir

Foreldrar áhyggjufullir yfir einmana ungmennum

Hitt húsið kannar hvort mögulegt sé að aðstoða fleiri ungmenni sem eru félagslega einangruð vegna aukinnar eftirspurnar eftir þjónustunni. Verkefnastjóri segir að mun fleiri foreldrar hafi haft samband síðustu vikur en áður og lýst yfir áhyggjum vegna félagslegrar stöðu barna sinna.

Fjórðungi barna haldið heima þegar mest var

Fjórðungur foreldra leik- og grunnskólabarna í Reykjavík hélt börnum sínum heima þegar kórónuveirufaraldurinn var sem mestur. Skólastjóri segir fleiri nú farna að senda börnin aftur í skóla en hann hefur áhyggjur af líðan barna sem hafa jafnvel ekki mætt í fimm vikur í skólann núna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×