Innlent

Telja óhætt að hefja skólahald með hefðbundnu sniði

Kjartan Kjartansson skrifar

Sóttvarnalæknir telur óhætt að aflétta takmörkunum á skólastarfi í leik- og grunnskólum, þar á meðal tveggja metra reglunni, eftir fyrstu helgina í maí. Börn séu ekki talin þungamiðja í sóttvarnaráðstöfunum í kórónuveirufaraldrinum.

Nokkur óvissa var um hvort að regla um að halda tveggja metra fjarlægð á milli fólks yrði í gildi í leik- og grunnskólum þegar byrjað verður að létta á sóttvarnaaðgerðum 4. maí um helgina. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að leik- og grunnskólar gætu starfað með hefðbundnum hætti á upplýsingafundi almannavarna í gær en Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, fullyrti að tveggja metra reglan yrði í gildi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Víðir rakti misræmið í yfirlýsingum þeirra til þess að hann hefði ekki staðið sig nægilega vel í að miðla upplýsingum til menntamálaráðuneytisins. Ráðherra hefði byggt ummæli sín á fyrri yfirlýsingum almannavarna um skólahald.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, tók af tvímæli og sagðist hafa lagt til við heilbrigðisráðherra að hefja mætti leik- og grunnskólastarf með hefðbundnum hætti. Erfitt væri að framfylgja tveggja metra reglunni í skólunum og einnig væru heilbrigðisyfirvöld að fá betri og meiri upplýsingar um að smit væru fátíð á meðal barna yngri en tólf ára.

Þá væru vísbendingar úr smitrakningu um að smit frá börnum til fullorðinna ættu sér varla stað. Það væru fyrst og fremst fullorðnir sem smiti börn. Börn séu því ekki þungmiðja í sóttvarnaráðstöfunum nú eins og gildi þó í mörgum öðrum sjúkdómum.

„Á þeim grunni teljum við að við getum aflétt þessum takmörkunum á skólastarfi í leik- og grunnskóla, þar á meðal á þessari tveggja metra reglu,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttir

Sýnist ekki þurfa að lengja skólaárið

Menntamálaráðherra segir að sér og skólasamfélaginu sýnist að ekki verði þörf á að lengja skólaárið, þrátt fyrir þá röskun sem orðið hefur vegna kórónuveirufaraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×