Innlent

Helmingi fleiri karlar leita til Bjarkarhlíðar vegna ofbeldis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Sjötíu og einn karl hefur leitað til Bjarkarhlíðar vegna ofbeldis það sem af er ári en það eru helmingi fleiri karlar en allt árið í fyrra. Verkefnastýra Bjarkarhlíðar segir að karlarnir kæri síður ofbeldið þar sem þeir óttist viðbrögð samfélagsins. 

Á fyrstu átta mánuðum ársins leituðu 389 manns til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, 316 konur og 71 karl. Allt árið í fyrra leituðu 479 manns til Bjarkarhlíðar, þar af voru 61 karl.

„Karlmenn eru að sækja sér aðstoðar í meira mæli. Það er alveg helmings aukning núna frá því í fyrra,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastýra hjá Bjarkarhlíð.

Í fyrra voru karlar 13 prósent þolenda en eru nú 18 prósent. Á stofnárinu, árið 2017, voru þeir 9 prósent þolenda. Ragna Björg telur ástæðuna meðal annars veru umræðuna í samfélaginu. 

„Umræðan um ofbeldi hefur aukist og sérstaklega þegar kemur að heimilisofbeldi og flestir af þessum mönnum eru að leita sér aðstoðar vegna heimilisofbeldis,“ segir Ragna Björg. 

Þá komi hluti þeirra vegna kynferðisofbeldis eða ofbeldis í æsku. Ragna segir að það vanti úrræði fyrir karla á borð við Kvennaathvarfið. 

„Það eru að koma upp mál þar sem karlmenn hafa ekki í neitt skjól að vernda og eru jafnvel bara að sækja inn til foreldra, oft fullorðinna aldraðra foreldra,“ segir Ragna Björg. Þá segir hún að minna sé um að karlar ákveði að kæra ofbeldið sem þeir hafi orðið fyrir. „Þeir óttast viðbrögð lögreglu og hvernig verði tekið á málunum,“ segir Ragna Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×