Fótbolti

Færeyingar byrja að æfa í dag og ætla að spila leiki frá 9. maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sum lið í Evrópu eru farin að æfa á nýjan leik og þar á meðal í Færeyjum.
Sum lið í Evrópu eru farin að æfa á nýjan leik og þar á meðal í Færeyjum. Getty/Alexandre Simoes

Færeyska fótboltatímabilið hefst eftir aðeins nítján daga en færeyska fótboltasambandið, Fótbóltsamband Føroya, tilkynnti þetta á heimasíðu sinni. Liðin í Betri deildinni eru því farin á fullt að undirbúa komandi tímabil.

Færeysku fótboltaliðin fengu að hefja aftur æfingar í dag 20. apríl en aðeins eitt COVID-19 tilfelli hefur fundist í Færeyjum frá 6. apríl. Einn greindist smitaður í fyrradag en þá hafði enginn mælst jákvæður í ellefu daga.

Fyrstu leikir tímabilsins í Betri deildinni fara síðan fram laugardaginn 9. maí en forráðamenn færeyska sambandsins tóku þessa ákvörðun í samráði við „Koronaráðgevingini“ sem er nefnd sem Færeyingar settu saman til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Leikirnir í færeysku deildinni fara þó fram „uttan áskoðara” sem þýðir að engir áhorfendur verða leyfðir á leikjunum.

Fyrsta umferðin í Betri deildinni átti að fara fram 15. mars síðastliðinn og því átti að vera búið að spila sex umferðir. Fyrsta umferðin mun því fara fram á sama tíma og sú níunda átti að fara fram.

Í sömu yfirlýsingu kemur fram að reiknað er með að yngri flokkar fái að hefja æfingar 4. maí næstkomandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.