Comfort, sjúkraskip bandaríska sjóhersins, kom til New York-borgar í gær. Um þúsund sjúkrarúm eru um borð á skipinu og er því ætlað að létta á því álagi sem hvílir á spítölum borgarinnar.
Hvergi í heiminum hafa greinst eins mörg kórónuveirusmit og í Bandaríkjunum, eða 164 þúsund. Eru skráð dauðsföll sem rakin eru til sjúkdómsins Covid-19 nú 3.170. Ástandið er sérstaklega slæmt í New York þar sem tala látinna fór yfir þúsund í gær.
Skipið lagðist að bryggju á Pier 90 við vesturströnd Manhattan og er búist við að fyrstu sjúklingarnir komi í skipið síðar í dag. Fagnaði borgarstjórinn Bill de Blasio því sérstaklega að skipið væri komið og sagði komuna skýrt dæmi um samstöðu Bandaríkjamanna.
Í skipinu starfa um 1.200 heilbrigðisstarfsmenn og er þar er finna skurðstofur, rannsóknarstofur og ýmsan hátæknibúnað sem mun nýtast þar sem verið er að hlúa að sjúklingum.