Innlent

Óttast að meðferðarstarf SÁÁ fari 30 ár aftur í tímann

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Víðir Sigrúnarson yfirlæknir á Vogi ætlar að hætta á stofnuninni fari forstjórinn. Hann óttast um meðferðarstarf SÁÁ.
Víðir Sigrúnarson yfirlæknir á Vogi ætlar að hætta á stofnuninni fari forstjórinn. Hann óttast um meðferðarstarf SÁÁ. Vísir/Arnar

Starfsfólk á Vogi hefur síðustu daga sent frá sér 3 yfirlýsingar þar sem ýmist er lýst yfir vantrausti á formann og framkvæmdastjórn SÁÁ eða beðið um skýringa á uppsögnum sérfræðinga við stofnunina. Þá er harmað að forstjóri sjúkrahússins á Vogi eftir ágreining við formann og framkvæmdarstjórn sagt upp störfum sínum.  

Víðir Sigrúnarson yfirlæknir á Vogi segir að þrátt fyrir þetta hafi engin viðbrögð hafi komið frá framkvæmdastjórninni.

„Vantraustsstillaga sem starfsfólk lýsti yfir var ekki tekin fyrir á stjórnarfundi í gær og við höfum ekkert heyrt frá henni,“ segir hann.

Hann segir starfsfólk afar ósátt við að þurfa að velja milli þess að taka á sig skerðingu á starfshlutfalli eða vera sagt upp eins og tillaga framkvæmdastjórnarinnar hafi hljóðað uppá.

„Með flötum 20% niðurskurði á starfshlutfalli starfsmanna er alls óljóst hvort hægt verði að halda hér úti t.d. hjúkrunarvakt sem þarf að vera opin allan sólahringinn. Það stefnir hreinlega starfseminni hér í voða,“ segir hann. 

Víðir segir starfsemi Vogs í algjörri upplausn. Margir hafi sagt upp eða íhugi að hætta. Þar á meðal hann sjálfur.

„Einn vanur áfengisráðgjafi hefur þegar sagt upp. Starfsfólk á hjúkrunarvakt hefur ekki samþykkt 20% niðurskurð á starfshlutfalli og býst við uppsögn.  Ég mun ekki halda hér áfram ef Valgerður Rúnarsdóttir hættir hér. Þá mun ég heldur ekki starfa sem sérfræðingur og vera settur undir ákvarðanir þessarar framkvæmdastjórnar sem er í raun áhugaklúbbur út í bæ. Við þurfum að fá fagstjórn undir þessa stofnun,“ segir Víðir. 

„Ég óttast það að ef fram fer sem horfir fari meðferðarstarf hér á Vogi 30 ár aftur í tímann,“ segir hann.

Íhugar að draga uppsögn sína til baka vegna aðstæðna á stofnuninni

Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri stofnunarinnar segir mikla upplausn ríkjandi og íhugar að draga uppsögn sína til baka.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.Vísir/Baldur

[„Það kemur í sjálfu sér vel til greina. Það er komin upp staða núna sem ég sé ekki fyrir endann á. Það sem skiptir mestu máli er að þjónustan hér haldi áfram,“ segir Valgerður.


Tengdar fréttir

Fleiri lýsa yfir vantrausti á framkvæmdastjórn SÁÁ

Sjö sálfræðingar og einn lýðheilsufræðingur hjá SÁÁ hafa lýst yfir vantrausti á framkvæmdastjórn stofnunarinnar, og lýst áhyggjum af framtíð hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var út í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×