Innlent

Þrír segja sig úr framkvæmdastjórn SÁÁ

Sylvía Hall skrifar
Mikillar óánægju hefur orðið vart vegna starfsloka Valgerðar Á. Rúnarsdóttur.
Mikillar óánægju hefur orðið vart vegna starfsloka Valgerðar Á. Rúnarsdóttur. Vísir/Sigurjón

Þrír meðlimir framkvæmdastjórnar SÁÁ hafa tilkynnt úrsögn sína í kjölfar uppsagnar Valgerðar Á. Rúnarsdóttur yfirlæknis á Vogi. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið en níu eru í framkvæmdastjórninni.

Valgerður sagði upp störfum vegna djúpstæðs ágreining við formanninn en átta starfsmönnum var sagt upp í gær og starfshlutfall annarra starfsmanna var lækkað. Það var gert án samráðs við hana eða aðra yfirmenn og sagði hún í samtali við RÚV að hún gæti ekki sætt sig við að teknar væru ákvarðanir um að segja upp lykilstarfsfólki án samráðs.

Fjölmargir lýstu yfir óánægju sinni með starfslok Valgerðar, þar á meðal fyrrum skjólstæðingar sem og læknar. Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir á Landspítala sagði starfslokin mikið högg fyrir bæði SÁÁ og sjúklinga á Vogi.

Sjá einnig: Upp­nám og ó­á­nægja alls­ráðandi vegna starfs­loka Val­gerðar á Vogi

„Það er vandfundin heilsteyptari manneskja með jafn sterka réttlætiskennd. Það hlýtur að vera hægt að finna betri lausn en þessa á vandamálum SÁÁ - enda Valgerður með reynslu og þekkingu sem fáir búa yfir hérlendis,“ skrifaði Tómas á Facebook-síðu sína.

Þá skoraði Rúnar Freyr Gíslason á félagsmenn að gera allt sem þeir gætu til að snúa við þessari ákvörðun, en hann þekkir vel til SÁÁ. Hann er fyrrverandi samskiptastjóri samtakanna og fór jafnframt í áfengismeðferð á árum áður, líkt og hann hefur rætt opinberlega í viðtölum.

„Hún er SÁÁ og hún er Vogur. hún bara má ekki hætta. Það vita allir sem hafa komið nálægt starfsemi félagsins. Ég skora á félagsmenn að gera allt sem þeir geta til að snúa við þessari ákvörðun.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.