Erlent

„Hlutirnir verða verri áður en þeir verða betri“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Johnson er nú í einangrun eftir að hafa greinst með COVID-19.
Johnson er nú í einangrun eftir að hafa greinst með COVID-19. Vísir/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að kórónuveirufaraldurinn í landinu eigi eftir að versna áður en hann tekur að ganga niður. Þetta kemur fram í bréfi sem forsætisráðherrann sendi á öll heimili í Bretlandi.

Johnson, sem nú er í einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum COVID-19, segir einnig í bréfinu að strangari aðgerðir en þær sem þegar hefur verið gripið til vegna faraldursins gætu verið á næsta leiti.

Þá munu Bretar á næstunni fá leiðbeiningar um þær reglur sem gilda vegna faraldursins inn um lúguna hjá sér á næstu dögum. Bréfið var sent í kjölfar mikillar gagnrýni á stjórnvöld í landinu vegna skorts á leiðbeiningum og skýrleika varðandi reglur tengdar kórónuveirunni.

Í síðustu viku tóku gildi reglur sem bönnuðu samkomur fleiri en tveggja á almannafæri, auk þess sem verslunum sem selja vörur sem teljast ónauðsynlegar var lokað.

„Frá byrjun höfum við reynt að grípa til réttra aðgerða á réttum tíma. Við munum ekki hika við að ganga lengra, ef það er það sem vísindaleg gögn og læknisfræðileg ráðgjöf bendir til að við þurfum að gera,“ segir Johnson meðal annars í bréfinu.

„Það er mikilvægt að ég sé hreinskilinn við ykkur – við vitum að hlutirnir verða verri áður en þeir verða betri. En við stöndum rétt að undirbúningi, og því meira sem við fylgjum öll reglunum, því færri líf munu tapast og því fyrr getur lífið aftur snúið í eðlilegt horf.“

Sérfræðingar í Bretlandi telja að staðfestum tilfellum COVID-19 og dauðsföllum af völdum sjúkdómsins muni halda áfram að fjölga á næstu tveimur til þremur vikum, áður en áhrifa félagslegrar fjarlægðar (e. social distancing) og annarra ráðstafana muni bera ávöxt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×