Fótbolti

Allt bendir til þess að Emil hafi verið upphafsmaður klósettrúlluáskoruninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Hallfreðsson brosti þegar Ríkharð Guðnason sýndi honum klósettrúlluna.
Emil Hallfreðsson brosti þegar Ríkharð Guðnason sýndi honum klósettrúlluna. Mynd/S2 Sport

Emil Hallfreðsson var gestur Ríkharðs Guðnasonar í þættinum Sportið í kvöld á Stöð 2 Sport í gærkvöldi og þeir fóru meðal annars yfir það hvort Emil Hallfreðsson hafi verið upphafsmaður af vinsælu æði á samfélagsmiðlum.

Allt bendir nefnilega til þess að íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson hafi byrjað klósettrúlluáskorunina fyrir nokkrum vikum.

Ríkharð Guðnason fékk klósettrúllu í hendurnar í viðtali við Emil og spurði íslenska landsliðsmanninn út í þennan möguleika. „Kannastu við þetta,“ spurði Ríkharð. „Já ég kannast eitthvað aðeins við þetta,“ svaraði Emil og Ríkharð sýndi síðan myndbandið sem Emil tók af sér að gera líklega fyrstu klósettrúlluáskorunina.

Emil Hallfreðsson hélt þá klósettrúllunni 33 sinnum á lofti en myndbandið var tekið upp heima hjá honum.

„Emil, nú eru flestir á Íslandi búnir að gera þetta og margir bestu fótboltamenn heims eru búnir að taka þetta. Veistu hvað ég heyrði í dag: Að þú hafir startað þessu trendi,“ sagði Ríkharð.

„Ég ætla ekki að fara að fullyrða það sjálfur en þetta byrjaði ekkert fyrr en mörgum dögum eftir að við konan tókum þetta upp heima. Þetta var bara einhver hugmynd því við vorum nýbúin að fá matar- og klósettpappírsendingu heim í sótthvíldina,“ sagði Emil og hélt áfram:

„Það var búin að vera svolítil umræða um klósettpappír og að allir ættu að byrgja sig upp af honum. Ég hugsað að þetta gæti verið svolítið gott challenge að gera, að gera eitthvað nett í sótthvíldinni og að fíflast aðeins,“ sagði Emil.

„Ég taggaði einhverja vini mína á Ítalíu og síðan byrjaði þetta þvílíkt að berast út um allt. Það er bara skemmtilegt ef það er svoleiðis að ég hafi átt þetta frá upphafi,“ sagði Emil.

Emil Hallfreðsson reyndi svo aftur við klósettáskorunina og það má sjá þá tilraun og viðtalið við hann hér fyrir neðan.

Klippa: Emil Hallfreðsson og klósettrúlluáskorunin


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.