Innlent

Þau sem eru í verndarsóttkví hafa ekki tryggð réttindi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Á daglegum blaðamannafundi var spurt um réttindi þeirra sem tilheyra viðkvæmum hópum og eiga í aukinni hættu á að veikjast alvarlega vegna kórónuveirunnar.
Á daglegum blaðamannafundi var spurt um réttindi þeirra sem tilheyra viðkvæmum hópum og eiga í aukinni hættu á að veikjast alvarlega vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Lögreglan

Í umræðum um réttindi fólks sem tilheyrir viðkvæmum hópum sagði sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi í dag að fólki með alvarlega sjúkdóma sé ráðlagt að fara í verndarsóttkví. Vísaði hann til alvarlegra lungnasjúkdóma en sagði þetta ekki eiga til dæmis við um hefðbundinn astma.

„Við erum ekki að skipa fólki að fara í [verndarsóttkví], heldur erum við að biðla til fólks. Á því byggja allar okkar tillögur og ráðleggingar til fólks; að það finni það, skilji það og vilji gera þetta. Þannig erum við að gera þetta með alla viðkvæma hópa,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Verndarsóttkví er ekki lögbundin fyrirskipun. Þannig er fólk háð velvilja vinnuveitanda að halda launum í slíku verndarsóttkví, að því gefnu að það geti ekki unnið heima, enda er ekki hægt að fá veikindavottorð. Það staðfesti Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, á þessum sama fundi í dag.

„Það er auðvitað hægt að skrifa vottorð þar sem staðfestist að einstaklingur sé með sjúkdóm en í sjálfu sér er fólk ekki veikt,“ sagði Óskar Reykdalsson.

Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.Vísir/Baldur

Fréttastofu hefur borist bréf frá fólki sem tilheyrir þessum viðkvæmu hópum. Til dæmis frá fólki sem er á ónæmisbælandi lyfjum eða með öndunarfærasjúkdóma. Margir hverjir eru á atvinnumarkaði en vegna sjúkdóms síns vilja ekki vera meðal fólks. Einhverjir hafa bent á að það skjóti skökku við að þeir sem velji sjálfir að fara til útlanda í skíðaferð, jafnvel vitandi af hættunni og sóttkvískyldunni, fái laun í tvær vikur í sóttkví á meðan þeir sem eru í aukinni hættu vegna veirunnar fái ekki laun.

Á upplýsingafundinum í dag sagði almannavarnateymið að málið væri í skoðun. Sömuleiðis sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, ráðuneytið vera að skoða þessi mál. Fréttastofa mun fylgjast með framvindu mála næstu daga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.