Innlent

„Virðumst vera frekar að stefna í svartsýnu spána“

Eiður Þór Árnason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Nokkur aukning hefur verið í fjölda nýgreindra kórónuveirusmita hér á landi síðustu daga og náði aukningin hámarki í gær þegar 95 smit bættust við á einum sólarhring.

Hópur vísindamanna frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala kynntu fyrir helgi fyrsta spálíkanið um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi. Þar voru settar fram tvær meginspár, líklegustu spá og svartsýn spá.

Aðspurður um það á upplýsingafundinum í dag hvort þessar nýju smittölur færi okkur nær svartsýnu spánni sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að svo virðast vera. Þó bæri að taka því með fyrirvara þar sem margt geti enn breyst.

„Við eigum eftir að sjá líkanið og tölur milli daga geta breytt líkaninu töluvert. Eins og tölurnar eru núna þá virðumst við vera frekar að stefna í svartsýnu spána en það getur bara margt breyst og línurnar á þessu stigi málsins liggja bara mjög nálægt hvor annarri. Svo það þarf ekki mikið til að hreyfa spánna í aðra átt. Þannig er bara staðan í dag.“

Sjá einnig: Stýrir Covid-teymi Landspítalans: Ætla að vera búin undir svartsýnustu spár

Fram kom á fundinum í dag að allar áætlanir heilbrigðisyfiralda og almannavarna miði að því að undirbúa kerfið vel undir svartsýnu spánna.

Hið sama kom skýrt fram í máli Ragnars Freys Ingvarssonar, læknis sem fer fyrir Covid19-teymi Landspítalans, nú fyrir helgi.

„Ef svartsýnustu spár reynast sannar, þá ætlum við að vera tilbúin fyrir það.“

Þá sagðist hann aldrei hafa séð viðlíka samvinnu og þá sem sé í gangi á Landspítalanum þessa dagana.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×