Innlent

568 staðfest smit: Aldrei verið eins mikil aukning á einum sólarhring

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikið álag hefur verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans síðustu vikur.
Mikið álag hefur verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans síðustu vikur. Vísir/vilhelm

Staðfest kórónuveirusmit hér á landi eru nú orðin 568, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Staðfest smit voru í gær 473 talsins og hefur þeim því fjölgað um 95 frá því í gær. Aldrei hefur verið eins mikil aukning í greindum smitum á einum sólarhring.

6.340 einstaklingar eru nú í sóttkví hér á landi samkvæmt upplýsingum á síðunni og eru tólf nú á sjúkrahúsi vegna veirunnar. Þá er 22 batnað og hafa 1.066 lokið sóttkví. Alls hafa 10.118 sýni nú verið tekin. 

Einungis 350 sýni voru greind í gær og hafa ekki færri sýni verið rannsökuð eftir að Íslensk erfðagreining hóf skimun sína fyrir veirunni. Þar af voru einungis þrjátíu sýni greind hjá fyrirtækinu í gær. Tekin var ákvörðun um að hægja á skimuninni tímabundið vegna skorts á veirupinnum sem nauðsynlegir eru til að taka sýnin.

Mjög hátt hlutfall þeirra sýna sem voru í gær rannsökuð á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans reyndust jákvæð eða hátt í þrjátíu prósent.

Hefðbundinn upplýsingafundur almannavarna hefst klukkan 14 í Skógarhlíð og verður fundinum streymt hér á Vísi.

Fram kom í gær að hertar aðgerðir almannavarna vegna faraldursins verði kynntar nú um helgina. Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum á upplýsingafundi í gær. Þá má gera ráð fyrir að þær taki gildi strax í vikunni sem framundan er.

Ríkisstjórnin fundar um þær aðgerðir nú síðdegis.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×