Innlent

Vísbendingar um „gott og verndandi ónæmissvar“ við kórónuveirunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Alls hafa nú 409 kórónuveirusmit verið staðfest á Íslandi.
Alls hafa nú 409 kórónuveirusmit verið staðfest á Íslandi. Vísir/vilhelm

Merki eru um gott og verndandi ónæmissvar í kjölfar þess að einstaklingur nær sér eftir Covid-19-sjúkdóminn. Helsta óvissan nú snýr að því hversu lengi þetta ónæmi varir. Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavefnum við spurningu þess efnis hvort hægt sé að smitast oftar en einu sinni af kórónuveirunni, sem veldur Covid-19.

Yfir 200 þúsund tilfelli af veirunni hafa verið greind á heimsvísu, þar af 409 á Íslandi samkvæmt nýjustu tölum. Þá nálgast dauðsföll af völdum veirunnar nú tíu þúsund alls í heiminum.

Jón Magnús segir í svari sínu að mikilvæg spurning sem beri að svara þegar ný sýking komi upp sé hvort náist að mynda ónæmi gegn henni, þ.e. ef einstaklingur fær Covid-19-sjúkdóminn og jafnar sig á honum, getur hann smitast aftur af veirunni?

Sjá einnig: Greindist með kórónu­veiru í annað sinn

Í þessu samhengi hefur til dæmis verið greint frá nokkrum tilfellum á heimsvísu þar sem einstaklingar með Covid-19 virðast jafna sig af veirunni; losna við einkenni og sýni úr þeim reynist neikvætt, en greinast síðan aftur með veiruna við sýnatöku.

Ónæmisminni gegn einni gerð kórónuveiru verndar ekki gegn annarri gerð

Jón Magnús byrjar á því að fara yfir að nýja kórónuveiran, hverrar faraldur geisar nú, sé einmitt kórónuveira. Almennt séð myndi líkaminn sterkt ónæmissvar gegn slíkum veirum.

„Þegar ónæmissvar hefur myndast gegn veiru myndast gjarnan ónæmisminni, en með því er átt við að ónæmiskerfið þekkir veiruna við endursmit og kemur í veg fyrir þróun sýkingar.“

Ónæmisminni sem myndast vegna einnar gerðar kórónuveiru mun þó ekki verja okkur gegn sýkingu annarrar gerðar kórónuveiru. Þetta eigi til að mynda við um kórónuveirur sem kenndar hafa verið við SARS og MERS. Þá sé einnig misjafnt hversu lengi ónæmisminnið vari en í því samhengi sé þó vissulega gagnlegt að horfa til áðurnefndra kórónuveira SARS og MERS.

„Fyrir báðar veirurnar virðast sértæk og verndandi mótefni myndast og haldast til staðar í allt að tvö ár. Eftir þann tíma virðist magn mótefnanna fara minnkandi. Hvort þetta þýði að endursýking getur orðið að þeim tíma liðnum er óvíst sem stendur. Hins vegar virðist frumubundið ónæmi vara lengur en í tvö ár. Þetta hefur mest verið rannsakað í tengslum við MERS-CoV.“

Engin ástæða sé til að ætla að öðruvísi ónæmi myndist gegn nýju kórónuveirunni. Niðurstöður nýlegrar rannsóknar hafi sýnt fram á gott mótefnasvar tveimur til þremur vikum eftir sýkingu, sem kom í veg fyrir endursýkingu.

„Þetta, ásamt því sem við vitum nú þegar um kórónuveirur, bendir sterklega til þess að við myndum gott mótefnasvar eftir COVID-19 sem ætti að koma í veg fyrir endursýkingar,“ skrifar Jón Magnús.

Meiri tími til að rannsaka veiruna

„Hvað þá með fréttir um einstaklinga með „endursmit“ eða versnandi einkenni eftir útskrift? Hvað getur legið þar að baki?“ spyr Jón Magnús að lokum og telur upp hugsanlegar orsakir, sem önnur nýleg rannsókn fer yfir. Þau eru eftirfarandi:

  1. Vitað er að veiran getur fundist í öndunarfærum einstaklinga í meira en 30 daga eftir upphaf einkenna COVID-19. Það að veiran finnist í sýni er ekki ávísun á að virkur sjúkdómur sé til staðar. Þannig geta einstaklingar veikst af öðrum ástæðum eftir COVID-19 en áfram verið með veiruna til staðar við sýnatöku.
  2. Þótt prófin sem notuð eru til að greina veiruna í öndunarfærum séu almennt mjög góð geta þau verið neikvæð þrátt fyrir að veiran sé til staðar. Þetta kallast fölsk-neikvæð niðurstaða og á sérstaklega við þegar magn af veirunni er tiltölulega lítið, sem dæmigert er að sjá í batafasa. Þannig getur einhver verið að jafna sig eftir COVID-19, verið neikvæður í einu sýni en jákvæður í öðru. Þetta þarf ekki endilega að þýða að veiran sé aftur orðin vandamál.[6]
  3. Eins og staðan er núna skiljum við ekki að fullu náttúrulega þróun þessarar veirusýkingar. Vitað er að veiran getur farið í bæði efri og neðri öndunarfærin (lungun) og fer alvarleiki veikindanna meðal annars eftir þessari dreifingu. Einnig getur COVID-19 verið það sem nefnt er tvífasa veikindi, með vægum einkennum til að byrja með sem versna gjarnan viku síðar. Það er þannig hugsanlegt að tími til alvarlegri veikinda geti verið enn lengri og meðal annars lýst sér þannig að sjúklingur verði fyrst betri en versni síðan snögglega aftur.
  4. Einstaklingar með COVID-19 fá mismunandi meðferðir eftir löndum og spítölum. Margir hafa verið meðhöndlaðir með barksterum, ónæmisbælandi meðferð sem getur minnkað bólgu en einnig minnkað ónæmissvar við veirunni. Þetta gæti truflað mynstur veirunnar í sýnum og einnig leitt til þess að hugsanleg verri einkenni sýkingar geti komið fram eftir útskrift af spítala.

„Eftir stendur að engin staðfest tilfelli endursýkingar af SARS-CoV-2 eru þekkt. Einnig eru merki um gott og verndandi ónæmissvar í kjölfar þess að einstaklingur nær sér eftir COVID-19. Helsta óvissan nú er hversu lengi það ónæmi varir – verður það í tvö ár með dvínandi magni eins og í SARS og MERS eða endist ónæmið ævilangt? Það er að minnsta kosti hughreystandi að meira að segja ef ónæmið varir aðeins í nokkur ár gefur þetta okkur tíma til að rannsaka veiruna betur, finna meðferðir og vonandi þróa bóluefni sem mun veita betri og langvinnari vörn án þess að einstaklingur þurfi að sýkjast af veirunni sjálfri,“ skrifar Jón Magnús.

Svar Jóns Magnúsar á Vísindavefnum í heild.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×