Innlent

Ísland undanþegið útflutningsbanni ESB á lækningavörum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræddi við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í síma í dag. Framkvæmdastjórnin ákvað að undanskilja EFTA-ríkin útflutningsbanninu á fundi í kvöld.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræddi við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í síma í dag. Framkvæmdastjórnin ákvað að undanskilja EFTA-ríkin útflutningsbanninu á fundi í kvöld. Vísir/Getty

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti að leiðrétta reglugerð um útflutningsbann á lækningavörum þannig að það nái ekki til EFTA-ríkjanna innan evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Íslands. Að óbreyttu hefði þurft sérstakt útflutningsleyfi til að flytja inn búnað sem er talinn nauðsynlegur í baráttunni gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins til Íslands.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að Evrópusambandið hafi fallist á sjónarmið Íslands og annarra EFTA-ríkja og fallið frá útflutningsbanni á tilteknum hlífðarbúnaði sem heilbrigðisstarfsfólk notar í störfum sínum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ræddi við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í síma í dag þar sem von der Leyen hét því að beita sér fyrir lausn á málinu. Í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins vegna símtalsins segir að þær hafi einnig rætt um lokun landamæra ríkja í Evrópu.

„Forsætisráðherra lagði áherslu á mikilvægi málsins og minnti á að ESB væri einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands. Undirstrikaði hún mikilvægi góðra samskipta og samstarfs EES-EFTA ríkjanna og Evrópusambandsins, ekki síst á þessum erfiðu tímum,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×