Innlent

Veiran að ná sér á flug

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Töluverð aukning hefur orðið í greiningu á kórónuveirusmitum hér á landi. Staðfest smit eru orðin 330 en þeim fjölgaði um 80 frá því í gær. Þetta eru fyrstu vísbendingar um að við séum á leið upp ákveðna „brekku“ í kúrvu faraldursins sem teiknuð hefur verið upp.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sjö eru nú inniliggjandi á Landspítalnum með kórónuveiruna, þar af einn á gjörgæslu. Sá er þó ekki í öndunarvél. Þá eru 3700 í sóttkví á landinu.

Jákvæð sýni sem greindust á veirufræðideild Landspítalans nú voru 73 talsins og hlutfallið því um 15 prósent, en hefur hingað til verið um 10 prósent. Þannig hefur orðið verulegt stökk í staðfestum smitum á veirufræðideildinni, sem er merki um að veiran sé að ná sér aðeins á flug, að sögn Þórólfs.

Sjá einnig: Miklar líkur á að ferðamaðurinn hafi látist af völdum COVID-19

Hlutfall jákvæðra sýna hjá Íslenskri erfðagreiningu síðasta sólarhring var um 0,8 prósent en hefur verið um 0,7 prósent svo breytingin þar er ekki mikil.

Þórólfur sagði þessa aukningu ekki koma á óvart. Búist væri við enn frekari aukningu á næstunni. Það sé hluti af eðlilegum ferli svona faraldurs – hann fari upp á við en passa þurfi upp á að hann fari ekki of hátt.

Þá sé hægt að grípa til aðgerða til að bregðast við þessari aukningu. Yfirvöld hafi ýmislegt upp í erminni í þeim efnum þegar fram líða stundir. 

Þá benti Þórólfur á að þegar hafi verið settar takmarkanir á samkomur og skólahald, og alltaf sé inn í myndinni hvort herða eigi á því eða slaka. Fátt fleira sé í stöðunni. Í „grunnprinsippinu“ snúist þetta um samgang fólks, nánd og hreinlæti. Þá sé það inni í myndinni að loka grunn- og leikskólum en það yrði gert í samráði við stjórnvöld.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×