Innlent

„Ríkið þarf að gera eitthvað mikið og það þarf að vera stórt“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Gjaldeyristekjur þjóðarinnar gætu lækkað um allt að fjórðung á þessu ári vegna samdráttar í ferðaþjónustu samkvæmt skýrslu KPMG um áhrif COVID-19 á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja sem ráðgjafarsvið KPMG hefur unnið með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála . 

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar hefur kallað eftir sértækum aðgerðum stjórnvalda vegna stöðu greinarinnar. 

Ásberg Jónsson framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor telur að flestar ferðaskrifstofur fari í þrot verði ekki lögum um endurgreiðslu breytt. Hann segir sértækar aðgerðir stjórnvalda nauðsynlegar.

„Ríkið þarf að gera eitthvað mikið og það þarf að vera stórt. Við erum að tala um framtíð íslensks hagkerfis. Það þyrfti að gera fyrirtækjum kleift að leggjast í dvala meðan aðgerðir vara. Það þyrfti að vera mögulegt að setja starfsfólk á fullar atvinnuleysisbætur.  Það þyrfti að frysta lán til lengri tíma. Í einhverjum tilfellum þyrfti að styrkja fyrirtækin beint með greiðslum.   Þá þyrfti að fara að fordæmi margra Evrópuþjóða  um að ferþajónustufyrirtækjum verði gert leyfilegt að endurgreiða viðskiptavinum sínum með inneign,“ segir Ásberg. 

Ásberg segir að langflest fyrirtæki í greininni noti hlutabótaleiðina en eigi erfitt með að segja upp fólki.

Það er engin á ferli við Hallgrímskirkjuna sem um árabil hefur verið einn fjölfarnasti ferðamannastaður landsins.Vísir/Egill

„Fyrirtækin í greininni hafa ekki efni á að segja upp fólki því þá þarf að greiða uppsagnafrest og ef þau gera það þá eru þau orðin gjaldþrota“ segir hann.

Hann segir að Evrópulöggjöf um að ferðaskrifstofur endurgreiði viðskiptavinum bókaðar ferðir afar íþyngjandi þar sem oft sé fyrirtækið sjálft búið að greiða fyrir þjónustu sem það fær ekki endurgreitt á móti. Mörg lönd hafi hins vegar breytt þessu.

„Þess vegna hafa margar Evrópuþjóðir viðurkennt þetta vandamál að ljóst sé að ferðaskrifstofur geti ekki endurgreitt og hafa heimilað þeim að endurgreiða í formi inneignar.Það er alveg ljóst að ef fyrirtækin þurfa að endurgreiða samkvæmt reglugerðinni þá fara þau flest á hausinn,“ segir Ásberg.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.