Innlent

Markmiðið að tryggja afkomu fólks á óvissutímum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar

„Það er auðvitað verið að horfa til ýmissa þeirra athugasemda sem hafa komið fram, til dæmis varðandi starfshlutfall og annað slíkt og þetta þarf auðvitað allt að kostnaðarmeta og setja í samhengi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, þegar hún var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld

Þingfundi sem átti að vera á morgun hefur verið frestað til föstudags til að meiri tími gefist til að fara yfir kostnað við breytingar á frumvarpi um atvinnuleysisbætur til þeirra sem fara í hlutastarf vegna áhrifa kórónuveirunnar á stöðu fyrirtækja og heimila.

Þá tilkynnti Seðlabankinn það fyrr í dag að hann hygðist aðstoða viðskiptabankana og að gjaldeyrisforðinn væri gríðarlega öflugur. Bankarnir stæðu á traustum fótum og að þeir gætu auðveldlega endurfjármagnað allar skuldir ferðaþjónustunnar ef þörf væri á.

„Seðlabankinn er að taka niðursveifluaukann svokallaðan auk þess að lækka vexti sem hafa aldrei verið lægri. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir það að bankarnir, fjármálafyrirtækin hafa töluvert aukið svigrúm til að veita fyrirtækjum fyrirgreiðslu, og heimilum. Það hjálpar líka að koma fólki og fyrirtækjum í gegn um skaflinn,“ sagði Katrín.

Þá staðfesti hún að verið væri að skoða frumvarpið hjá velferðarnefnd Alþingis og þangað hafi verið fengnir fjöldi gesta til að fara yfir málin. Ríkisstjórnin sjálf hafi þar að auki farið yfir athugasemdir sem hafi borist. „Ég átti sjálf fund með til að mynda fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í gærdag sem og fulltrúum atvinnurekenda,“ sagði Katrín. „Félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að því að leggja til breytingar sem velferðarnefnd mun taka til skoðunar.“

„Stóra markmiðið með þessu máli er að við tryggjum afkomu fólks í gegn um þessar tímabundnu þrengingar og það markmið er auðvitað það sem er okkar leiðarljós í allri þessari vinnu.“


Tengdar fréttir

Frum­varp um bætur í hluta­starfi mun taka breytingum

Þingfundi sem átti að vera á morgun hefur verið frestað til föstudags til að meiri tími gefist til að fara yfir kostnað við breytingar á frumvarpi um atvinnuleysisbætur til þeirra sem fara í hlutastarf vegna áhrifa kórónuveirunnar á stöðu fyrirtækja og heimila.

Seðlabankinn losar um 60 milljarða í viðskiptabönkunum

Seðlabankinn dældi 60 milljörðum inn í bankakerfið í dag með afnámi sveiflujöfnunarauka viðskiptabankanna. Skilaboðin til þeirra um halda áfram útlánum til fyrirtækja og heimila eru skýr og að bankarnir greiði eigendum sínum engan arð á þessu ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×