Erlent

Sendir herinn út á götur í Lesótó

Atli Ísleifsson skrifar
Thomas Thabane tók við embætti forsætisráðherra í Lesótó árið 2017, sama ár og þáverandi eiginkona hans var myrt.
Thomas Thabane tók við embætti forsætisráðherra í Lesótó árið 2017, sama ár og þáverandi eiginkona hans var myrt. Getty

Forsætisráðherra Afríkuríkisins Lesótó, sem sakaður er um að hafa átt aðild að morðinu á fyrrverandi eiginkonu sinni, hefur fyrirskipað að herinn skuli halda út á götur til að koma aftur á röð og reglu í landinu.

Thomas Thabane sakaði í sjónvarpsávarpi ónafngreinda aðila innan lögreglu að grafa undan lýðræðinu í landinu. Ákvörðun forsætisráðherrans kemur degi eftir að stjórnlagadómstóll landsins felldi úr gildi ákvörðun hans að leysa upp þingið.

Thabane hefur tekist að halda í valdataumana þrátt fyrir að hafa sætt miklum þrýstingi um að segja af sér vegna meintrar aðildar að morðinu á þáverandi eiginkonu sinni, Lipolelo Thabane, árið 2017. Þau áttu þá í hatrammri skilnaðardeilu.

Tveimur mánuðum eftir morðið gekk Thabane að eiga núverandi eiginkonu sína, Maesaiah, en hann bjó með henni á þeim tíma sem morðið var framið. Maesaiah Thabane var í febrúar ákærð fyrir morðið á Lipolelo, en hefur síðan verið sleppt gegn tryggingu.

Lögmenn forsætisráðherrans segja að hann eigi að njóta friðhelgi í nafni embættisins. Hinn áttræði forsætisráðherra hefur áður sagt að hann muni láta af embætti í júlí, en innan flokks forsætisráðherrans hefur verið þrýst á hann að hætta fyrr.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.