Fótbolti

Meistararnir í Svíþjóð leggja niður liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stina Blackstenius og aðrir leikmenn Kopparbergs/Gautaborgar þurfa að finna sér nýtt lið.
Stina Blackstenius og aðrir leikmenn Kopparbergs/Gautaborgar þurfa að finna sér nýtt lið. getty/Manchester City

Aðeins nokkrum vikum eftir að hafa orðið sænskir meistarar í fyrsta sinn hefur Kopparbergs/Gautaborg lagt niður kvennalið sitt.

Ákvörðunin var tekin 17. desember og leikmenn og starfsfólk fengu fregnirnar í morgun. Kopparbergs/Gautaborg tekur ekki þátt í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili og leikmönnum er frjálst að finna sér önnur lið.

„Það er ekkert stutt svar en þetta er besta ákvörðunin til lengri tíma litið,“ sagði Peter Bronsman, stjórnarformaður Kopparbergs/Gautaborgar, við Gautaborgar póstinn. Hann sagði jafnframt að fréttirnar hefðu komið leikmönnum og starfsfólki félagsins í opna skjöldu.

Kopparbergs/Gautaborg á í fjárhagsvandræðum og samningaviðræður um að fara í samstarf við IFK Gautaborg skiluðu ekki tilætluðum árangri.

Bronsman segir að sænsk félög verði að gera eins og önnur félög í Evrópu og halda úti bæði karla- og kvennaliði. Annars muni kvennalið ekki eiga möguleika.

Kopparbergs/Gautaborg varð sænskur meistari með nokkrum yfirburðum á síðasta tímabili. Liðið var sjö stigum á undan Rosengård sem Glódís Perla Viggósdóttir leikur með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×